Bankasýslan óhentugt fyrirkomulag

Hildur Sverrisdóttir.
Hildur Sverrisdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Málið í kringum sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka sýnir að Bankasýslan er mjög óhentugt fyrirkomulag, að mati Hildar Sverrisdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.

Það hafi Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra margoft bent á og viljað breyta án þess að hafa til þess stuðning á þingi. „Vonandi verður stuðningur til þess á þinginu hér eftir,“ segir Hildur, spurð út í skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka.

Bankasýslan, sem hefur verið gagnrýnd fyrir störf sín, situr einmitt fyrir svörum hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í fyrramálið.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði skýrsluna áfellisdóm yfir Bjarna. Hildur kveðst ekki geta lesið það út úr skýrslunni. Slík ummæli séu ekki í samhengi við það sem standi í henni.

Kallar ekkert á þá þrautarlendingu

Hildur segir ekki nauðsynlegt að skipa rannsóknarnefnd vegna skýrslunnar. Ekkert kalli á slíkt á þessu stigi málsins. „Nú er þessi rannsókn á vegum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að hefjast. Eigum við ekki að leyfa henni að klárast fyrst? En ég sé ekkert í þessu máli sem kallar á þá þrautarlendingu sem rannsóknarnefnd á að vera,“ greinir hún frá.

Hugsa þarf til framtíðar

Spurð segir hún lekann á skýrslunni til fjölmiðla vera vondan og slæmt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi ekki staðið undir þeim trúnaði sem henni bar að gæta að. Leiða þurfi málið til lykta. Sömuleiðis þurfi að hugsa til framtíðar um hvernig halda skuli utan um mál sem þessi, enda mikilvægt að hægt sé að treysta löggjafarvaldinu fyrir ýmiss konar gögnum.

mbl.is