Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, segir mjög bagalegt að skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka hafi verið lekið til fjölmiðla.
Málið snúist um virðingu gagnvart nefndinni, nefndarmönnum, ríkisendurskoðanda og þeirri vinnu sem hafi farið fram í á sjöunda mánuð.
„Síðan sýnist manni drögunum líka hafa verið lekið, maður skilur það ekki einu sinni. Ekki höfum við þessi drög undir höndum, þannig að úti í samfélaginu er verið að fjalla um eitthvað mál sem við höfum ekki undir höndunum. Ríkisendurskoðun bar að skila skýrslunni til Alþingis og þess vegna eigum við að halda þennan trúnað, þannig að þetta er mjög bagalegt,“ segir Halla Signý, sem kveðst aðspurð ekki hafa lekið skýrslunni, enda hafi hún engan hag af því. Hún eigi sjálf að vinna málið.
Innt eftir því hvort kalla eigi til rannsóknarnefnd, líkt og stjórnarandstaðan hefur gert, segir Halla Signý skýrsluna vera góða og svara mörgum spurningum.
Hún segir skýrsluna skilja eftir sig spurningar sem hún vonast eftir því að fjármálaeftirlitið svari, enda starfi það á öðrum forsendum en ríkisendurskoðandi. Eins eigi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eftir að vinna málið. Þess vegna sé ekki ástæða á þessum tímapunkti til að kalla til rannsóknarnefnd.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundar í fyrramálið vegna skýrslunnar og verða þar til bærir sérfræðingar kallaðir fyrir nefndina.
Spurð segir hún nefndina ekki hafa gefið sér ákveðinn tímaramma til að fjalla um skýrsluna. Hún segir óvanalegt að fjallað sé um skýrsluna í sérstakri umræðu á Alþingi í dag áður en hún fer í gegnum nefndina. „En hvað um það, við erum í þessari stöðu núna og verðum að vinna út frá því,“ segir hún.