Þingnefndin taki mið af athugasemdum Bankasýslunnar

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, segir athugasemdir Bankasýslu ríkisins vegna stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar allrar athygli verðar.

Hún segir á samfélagsmiðlum sínum í kvöld að ef athugsemdir Bankasýslunnar reynist réttar hafi Ríkisendurskoðun að hennar mati ekki staðið nógu faglega að skýrslugerð sinni gagnvart Alþingi.

„Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd verður að taka mið af þessum nýju upplýsingum í meðferð sinni á málinu hér eftir,“ segir Hildur sem situr sem fyrr segir í nefndinni.

Fulltrúar Bankasýslunnar áttu í morgun fund með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Þá birti stofnunin í morgun umræddar athugsemdir á vef sínum, en fulltrúar hennar hafa í dag gagnrýnt að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra í úttekt Ríkisendurskoðunar.

Fyrr í kvöld var greint frá því að nefndin hefði óskað eftir öðrum fundi með fulltrúum Bankasýslunnar, en óvíst er hvenær hann fer fram.

mbl.is