Framtíð fyrirtækisins Twitter virtist hanga í lausu lofti í dag eftir að skrifstofunum var lokað og starfsfólkið sent heim eins og greint hefur verið frá á mbl.is. Er lykilstarfsfólk fyrirtækisins fór í hrönnum að segja upp störfum til að mótmæla afarkostum nýja eigandans, Elon Musk, töldu margir að þessi vinsælasti vettvangur tjáskipta í dag væri hugsanlega í andarslitrunum.
Twitter er að ganga í gegnum miklar fæðingahríðir eftir að Musk keypti fyrirtækið fyrir 44 milljarða dala í síðasta mánuði. Í minnismiða sem Musk sendi starfsfólki í vikunni sagði hann að starfsmenn yrðu að velja á milli þess að vinna eins og harðjaxlar eða missa vinnuna.
Þá hafði hann þegar sagt upp helmingi starfsmanna, lokað á alla heimavinnu og sett upp vinnuplan með mjög löngum vinnudögum.
„Ég gæti verið alveg einstök, en fjandinn hafi það, ég er enginn harðjaxl,“ póstaði einn fyrrverandi starfsmaður Twitter, Andrea Horst, sem er kynnt á LinkedIn með starfstitilinn (eftirlifandi) aðfangakeðju- og afkastastjórnandi hjá Twitter.
Tilraun Musk til að kynna til sögunnar einhvers konar notendavottun sem greitt væri fyrir, hefur ekki gengið vel og afleiðingarnar hafa verið hrina af falsreikningum og hrekkjum sem hafa valdið því að stórir auglýsendur halda nú að sér höndum.
Hins vegar hefur umferðin á Twitter verið í algjöru hámarki undanfarið og póstaði Musk mynd af grínaktugum leikara standa yfir nýtekinni gröf, en vörumerki Twitter var sett yfir andlitið og grafsteininn. Meira en 1,3 milljónir notanda líkuðu við færsluna. Stuttu síðar kom önnur færsla frá honum sem sagði: „Metumferð er nú á notendatraffík til að athuga hvort að Twitter sé búinn að vera, og miðillinn hefur aldrei verið jafn fjörugur!“
Svo tæklaði hann starfsmannamálin með því að segja að besta fólkið yrði eftir „svo ég er ekkert að farast úr áhyggjum.“
Í gær hafði Musk sent út minnismiðann til starfsmannanna og beðið þá um að smella á tengil ef þeir hygðust vinna mikið eins og harðjaxlar fyrir klukkan 17. Ef starfsmenn væru ekki búnir að því væru þeir sjálfkrafa fyrrverandi starfsmenn fyrirtækisins og fengju þriggja mánaða uppsagnarlaun. Musk vildi ekki tala við AFP-fréttastofuna um málið.
Óvissa um hvernig Musk mun höndla miðilinn jókst í dag og haft var eftir hóp öldungadeildarfulltrúa Bandaríkjaþings að áætlanir Musk fyrir samfélagsmiðilinn „drægju úr trúverðugleika hans og öryggi og nokkuð ljóst væri að breytingarnar yrðu notaðar til svindls og svínarís auk þess að fólk myndi villa á sér heimildir.“
Frá Evrópu heyrðist í kanslara Þýskalands Olaf Scholz sem sagði að ríkisstjórn hans fylgdist nú grannt með Twitter með „vaxandi áhyggjum“ og myndi endurskoða hvort þeir héldu áfram að nota miðilinn.