Hafna umsókn Samherja um byggingarleyfi

Grindavíkurbær hafnaði umsókn Samherja þar sem hún var ekki í …
Grindavíkurbær hafnaði umsókn Samherja þar sem hún var ekki í samræmi við deiliskipulag. mbl.is/Sigurður Bogi

Skipulagsnefnd Grindavíkurbæjar hefur hafnað umsókn Samherja um byggingarleyfi fyrir seiðahús við Laxeldisstöðina Stað vestan Grindavíkur. Ástæðan er sú að áformin samræmast ekki gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið.

Fram kemur í fundargerð skipulagsnefndar að byggingin sé staðsteypt með yleiningar á þaki. Þá er stærð hússins 2.743,1 fermetrar, en 250 fermetrar af byggingunni fara út fyrir byggingarreit.

„Skipulagsnefnd beinir því til umsækjanda að senda inn tillögu að breyttu deiliskipulagi til nefndarinnar,“ segir í fundargerðinni.

Samherji fiskeldi áformar stórfellda uppbyggingu landeldis á Reykjanesi og er seiðahúsið hluti af þeirri fjárfestingu. Samtals hyggst Samherji fjárfesta um 60 milljörðum í eldi á næstu árum og er gert ráð fyrir að komið verður á laggirnar um 40 þúsund tonna landeldisstöð á Reykjanesi. Gert er ráð fyrir því að bygging seiðaeldisstöðvarinnar kosti um það bil milljarð króna.

mbl.is