Fyrirsætan Hailey Bieber fagnaði nýju aldursári með sannkallaðri afmælisviku í Tókýó í Japan. Hún hefur verið dugleg að deila myndum frá vikunni á samfélagsmiðlum, en með henni fögnuðu eiginmaður hennar, Justin Bieber og vinkona hennar, Kendall Jenner.
Hailey varð 26 ára hinn 22. nóvember síðastliðinn, en undanfarna daga hefur hún notið til hins ýtrasta í Japan með fólkinu sínu. Af myndum að dæma ferðaðist Hailey víðsvegar um Tókýó og gæddi sér á góðum mat.
Þá var blásið til afmælisveislu þar sem tískugyðjan sjálf klæddist „vintage“ pallíettu korseletti frá Dolce & Gabbana, víðum gallabuxum frá Balenciaga og ljósri kápu frá Bottega Venta. Hvítir hælar frá Balenciaga og „vintage“ Louis Vuitton taska settu svo punktinn yfir i-ið.
Afmælisdress fyrirsætunnar er ekki ódýrt, en gallabuxurnar hennar kosta yfir þúsund Bandaríkjadali, eða um 160 þúsund krónur, á meðan kápan kosta 12.500 Bandaríkjadali, eða 1,7 milljón krónur. Þá kostuðu skórnir um 230 þúsund krónur, en samanlagt kostaði dressið því vel yfir tvær milljónir króna.
Eiginmaður hennar, Justin, hefur einnig verið duglegur að deila myndum frá ferðalaginu. Þau hjónin byrjuðu ferðina á því að fara í bambus skóg og tóku þar sætar myndir af sér, en hann deildi fallegri færslu á afmælisdegi fyrirsætunnar.
„Hamingjuóskir (í Japan) til uppáhalds manneskjunnar minnar. Þú fyllir lífið af töfrum,“ skrifaði hann við færsluna, en hann birti skemmtilega myndaröð af hjónunum á ferðalagi um Tókýó.