Jólin eiga ekki að vera gjaldþrot og stress

Bryndís Hera Gíslasdóttir og Ásgeir Kolbeinsson.
Bryndís Hera Gíslasdóttir og Ásgeir Kolbeinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

At­hafnamaður­inn Ásgeir Kol­beins­son og heil­su­markþjálf­inn Bryn­dís Hera Gísla­dótt­ir, kölluð Hera, halda nú upp á sín ní­undu jól sam­an en á næsta ári hafa þau verið sam­an í tíu ár. 

Þau sáust fyrst þegar ut­an­bæjar­stelp­an Hera kom til Reykja­vík­ur frá Þor­láks­höfn til þess að taka af­leys­inga­vakt fyr­ir frænku sína sem vann á skemmti­staðnum Aust­ur en þann stað rak Ásgeir um ára­bil. Hann féll strax fyr­ir þess­ari feg­urðar­dís sem er sautján árum yngri en hann sjálf­ur og fór ein­beitt­ur í að reyna að heilla hana því fyr­ir hon­um var þetta ást við fyrstu sýn.

„Það fara oft svo góðar sög­ur af ut­an­bæjar­fólki. Það þykir gott til vinnu og hef­ur alls kon­ar kosti virðist vera,“ seg­ir hann og bæt­ir við að þótt hann hafi ekki blásið í öll segl­in við fyrstu kynni hafi hann lagt sig mikið fram um að fá að kynn­ast henni bet­ur. Nú tæp­um ára­tug síðar búa þau í ný­legu þriggja hæða par­húsi í Kópa­vog­in­um ásamt son­un­um Al­ex­and­er Loga og Ívari Degi sem Ásgeir átti fyr­ir. Þau skrifa vel­gengni í sam­band­inu á hversu góð þau séu í að leysa öll mál með upp­byggi­leg­um sam­töl­um og vera meðvituð um hversu ólík þau eru án þess að annað reyni eitt­hvað sér­stak­lega að breyta hinu í hátt­um og hegðun.

„Ef það er eitt­hvað sem ég er ekki sátt­ur við eða hún ekki sátt við þá för­um við ekki í pirr­ing með það held­ur er málið bara rætt og þannig leys­um við það. Svona lær­um við líka bet­ur inn á hvort annað. Hún veit hvernig ég er og öf­ugt.“

mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Ólík­ar týp­ur sem ná vel sam­an

Hera seg­ir að mik­il­vægt sé að reyna ekki að breyta fólki og að Ásgeir sé stund­um gal­inn og kassa­lagaður.

„Ég er svona týp­an sem finnst allt skemmti­legt og er mjög spont­ant. Mér finnst til dæm­is gam­an að það sé ekki bara ein leið heim til mín. Ég get al­veg valið um fjór­ar leiðir en hann vel­ur alltaf þá sömu. Ásgeir er svona reglupési, ef hlut­irn­ir virka þá er hann ekk­ert að breyta þeim, en þá elska ég að ögra hon­um að keyra aðra leið heim, sem hann á erfitt með en síðan hlær hann bara að því. Þannig erum við far­in að þekkja hvort annað svo vel,“ seg­ir Hera. Ásgeir seg­ir skýr­ing­una á mun­in­um á þeim liggja að mörgu leyti í stjörnu­spek­inni. „Ég er bara þessi venju­lega vanafasta stein­geit en mér finnst gam­an að þess­um spont­ant hlut­um hjá Heru. Það er oft þannig að þegar maður ven­ur sig á eitt­hvað þá er mik­il­vægt að vera líka til í að breyta því. Stein­geit­in er frek­ar form­föst en maður má ekki fest­ast al­veg. Oft þegar Hera sting­ur upp á ein­hverju þá eru mín fyrstu viðbrögð að segja nei. Það er bara af því í mín­um huga var kannski búið að ákveða að fara að gera eitt­hvað annað og breyt­ing því óþörf við fyrstu hugs­un. Þá horf­ir hún á mig og svo för­um við að hlæja af því höf­um lært að hafa húm­or fyr­ir þessu og höf­um slíp­ast vel sam­an með ár­un­um,“ seg­ir Ásgeir. Hann bæt­ir því við að Hera sé í hrúts­merk­inu og flest merk­in í kort­inu henn­ar séu eld­merki en hann sé þessi jarðbundni.

Er skreytióð og mun aldrei verða bara eitt­hvað eitt

Hera er týp­an sem hef­ur ekki áhuga á því að vinna bara í einu starfi. Hún er menntaður heil­su­markþjálfi og hef­ur mik­inn áhuga á stjörnu­merkj­um.

Þá vinna þau Ásgeir sam­an að verk­efn­um sem eiga enn eft­ir að líta dags­ins ljós og svo tek­ur hún að sér að skreyta sali fyr­ir veisl­ur. „Ég er al­veg skreytióð og fæ meðal ann­ars út­rás fyr­ir þá þörf með því að taka að mér verk­efni fyr­ir aðra. Manni er kennt í grunn­skóla að maður eigi að verða bara eitt­hvað eitt en nú hef ég loks­ins látið þann bögg­ul til hliðar og sætt mig við að ég mun aldrei verða bara eitt­hvað eitt. Heil­su­markþjálf­inn á þannig mjög vel við mig því ég hef mik­inn áhuga á heilsu og heil­brigði fólks og fólk er svo margs kon­ar,“ seg­ir hún.

Ég leiði talið að jól­un­um og spyr hana ráða um hvernig huga megi að heils­unni yfir hátíðarn­ar.

„Mér finnst mjög mik­il­vægt að maður missi sig ekki í sukki út des­em­ber og hugsi að maður ætli bara að byrja að hugsa um heils­una í janú­ar. Með því er maður far­inn að skadda and­legu heils­una. Ég vil frek­ar hugsa að þetta sé fal­legt tíma­bil og ég borða bara heilsu­sam­lega eins og ég er vön, en fer samt og fæ mér kakó við hátíðar­vagn­inn niðri í bæ þótt ég fái mér ekki kakó svona vana­lega. Svo þarf maður að passa að borða ekki yfir sig bara af því það eru jól og nóg af mat til held­ur njóta augna­bliks­ins. Það má líka borða óhollt í janú­ar. Það þarf ekk­ert að troða öllu ofan í sig í des­em­ber. Í raun snýst þetta um jafn­vægi eins og allt annað í líf­inu,“ seg­ir hún.

Fer ró­lega í jóla­bjór­inn og hef­ur hem­il á neysl­unni

Ásgeir er á sömu bylgju­lengd hvað þetta varðar. Hon­um finnst betra að halda takti í heilsu­sam­legu mataræði en neit­ar sér þó ekki um að gera sér dagamun í des­em­ber. Í þessu sam­hengi nefn­ir hann bjórdaga­töl­in sem eru alltaf gef­in út í byrj­un mánaðar­ins.

„Þetta er einn bjór á dag í tutt­ugu og fjóra daga! Fyr­ir mörg­um árum fannst mér þetta rosa­lega sniðugt en það pass­ar kannski ekki fyr­ir alla. Ég vil frek­ar gera mér dagamun og fá mér jóla­bjór með vin­um og fjöl­skyldu í aðdrag­anda jól­anna. Oft er verið að þvinga eitt­hvað inn hjá okk­ur sem er ekk­ert gott fyr­ir mann um jól­in og þarf því að hafa jafn­vægi á því eins og öllu öðru,“ seg­ir Ásgeir. Hera seg­ist sam­mála því að það sé ekki gott að vera í yf­ir­drif­inni neyslu þótt það sé hátíð og nefn­ir í því sam­hengi að það sé alls ekki hollt fyr­ir krakka að byrja hvern morg­un á því að fá sér súkkulaði úr daga­tali, sér­stak­lega ekki þegar mikið ofát er í gangi. Hún seg­ir að þessi litli súkkulaðimoli kalli á meiri sæt­indi. Sjálf kaup­ir hún litla poka og set­ur smágjaf­ir í fyr­ir son sinn en sá litli hef­ur botn­laus­an áhuga á lík­ams­hlut­um og líf­fær­um. Að sögn móður­inn­ar kæmi það henni ekki á óvart ef hann yrði lækn­ir eða ein­hvers kon­ar

vís­indamaður einn dag­inn.

„Ég finn gjaf­irn­ar til dæm­is í Tiger og kaupi þetta lækna­dót og fleira sem hann hef­ur gam­an af. Svo út­bú­um við sam­veru­da­ga­tal sem er mjög sniðugt, sér­stak­lega fyr­ir upp­tekna for­eldra því þess­ar gæðastund­ir eru svo dýr­mæt­ar. Hug­mynd­ir að sam­veru­da­ga­tali eru til dæm­is fönd­ur, til­raun­ir í eld­hús­inu, fjöru­ferð eða úti­vist og í raun bara hvað sem okk­ur Al­ex­and­er dett­ur í hug.“

Jólablað Bryndís Hera Gísladóttir og Ásgeir Kolbeinsson kynntust á skemmtistaðnum …
Jóla­blað Bryn­dís Hera Gísla­dótt­ir og Ásgeir Kol­beins­son kynnt­ust á skemmti­staðnum Aust­ur, sem hann rak á þeim tíma. Krist­inn Magnús­son

Taka lít­il skref í einu og spara stressið

Spurður hvaða hefðir hin vanafasta stein­geit haldi fast í svar­ar Ásgeir glett­inn að það séu í raun all­ar vondu hefðirn­ar. „Vera á síðustu stundu. Skreyta seint, kaupa gjaf­irn­ar seint en vera bara slak­ur fram að því,“ seg­ir hann en dreg­ur grínið strax til baka og seg­ist hafa breyst eft­ir að hann kynnt­ist Heru.

„Það er fólk sem not­ar all­an nóv­em­ber og des­em­ber í jó­laund­ir­bún­ing. Það er komið skraut í IKEA í byrj­un nóv­em­ber og þetta er allt byrjað. Sum­um finnst það pirr­andi. Ég spáði aldrei í jól­in fyrr en 20. des­em­ber en í dag er ég orðinn þetta fólk sem not­ar nóv­em­ber í und­ir­bún­ing. Ég upp­lifi hvað ég er glaður þegar des­em­ber kem­ur, að vera bú­inn að öllu. Það er til dæm­is komið jólaþorp í Hafnar­f­irði og af hverju ekki að klára að ganga frá öllu sem veld­ur stressi og nota svo laug­ar­daga og sunnu­daga fram að jól­um í af­slöpp­un og skemmti­leg­heit,“ spyr Ásgeir.

Hera er sam­mála og tel­ur fram fleiri kosti við að fara snemma af stað með und­ir­bún­ing­inn. Til dæm­is sé hægt að dreifa kostnaðinum við hátíðar­höld­in yfir fleiri mánuði og njóta fleiri daga.

„Það sem ég væri til í að inn­leiða meira hjá okk­ur elsku Íslend­ing­um er að nota þenn­an fal­lega tíma til að heim­sækja hvert annað og vera sam­an. Ekki henda pakk­an­um inn á Þor­láks­messu og hlaupa svo á næsta stað. Fólk er nógu stressað í dag­legu lífi, svo koma jól­in ofan á það og þá verður það enn stressaðra. Þetta þarf ekk­ert að vera svona mikið stress ef maður tek­ur lít­il skref og minn­ir sig á að þetta sé fal­leg­ur sam­veru­tími, ekki gjaldþrot og stress.“

Óþarfi að liggja af­velta uppi í sófa

Hera seg­ir að bætt skipu­lag við jó­laund­ir­bún­ing­inn hafi gefið þeim auka­dag til að njóta. Nú sé Þor­láks­mess­an líka heil­ög hjá þeim enda hafi reynsl­an kennt þeim hvað stressið sé leiðin­legt þann dag. „Þá lát­um við vini og ætt­ingja vita að við séum á leiðinni niður í bæ og svo koma þau sem geta að hitta okk­ur og úr verður hátíðleg sam­veru­stund.“

Parið er ekki stíft á hefðunum með jóla­mat­inn enda hafa all­ar mat­ar­hefðir breyst síðustu árin. Nú er til dæm­is hægt að fá ham­borg­ar­hrygg árið um kring en þegar Ásgeir var krakki voru þær kræs­ing­ar aðeins í boði á jól­un­um. Þau kjósa held­ur að velja eitt­hvað sem fer bet­ur í lík­amann og nefna þá sem dæmi kalk­úna­skip sem þau hafa haft á boðstól­um þrenn síðustu jól.

„Það tók okk­ur al­veg tíma að læra þetta. Við vor­um þannig að við lág­um bara af­velta uppi í sófa eft­ir mat­inn og leið illa yfir ofát­inu. Í dag fáum við okk­ur allt sem við vilj­um en vit­um vel að það kem­ur dag­ur eft­ir þenn­an dag,“ seg­ir hún.

mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Elsk­ar stór­ar kúl­ur og am­er­ískt skraut

Eins og áður var komið inn á hef­ur Hera sér­staka ánægju af því að skreyta í kring­um sig og nýt­ur þess sér­stak­lega um jól­in. Hún seg­ist vera skreyt­ingaóð og í raun séu skreyt­ing­ar ein­hvers kon­ar hug­leiðsla fyr­ir sér. Hún seg­ir þau hepp­in að hafa gott geymslupláss því að á hverju ári bæt­ist við nýtt jóla­skraut; helst vildi hún hafa það aðeins stærra því am­er­ískt jóla­skraut er henn­ar upp­á­hald en henni finnst leiðin­legt hvað það er dýrt hér á Íslandi. „Jóla­tréð okk­ar er mjög am­er­ískt. Ég elska stór­ar kúl­ur og svo er lest í kring­um tréð og svona. Því meira því betra. Ég var flug­freyja áður og fór oft til Banda­ríkj­anna. Mér finnst skreyt­inga­hefðin þar rosa­lega heill­andi og mér finnst svo gam­an að skreyta að ég hef í raun hugsað hvort ég ætti að taka það að mér að mæta heim til fólks að gera þetta. Reynd­ar var ég síðast beðin um það núna í morg­un en það er svo­lítið erfitt í fram­kvæmd því það er svo mis­jafnt hvað fólk á af skrauti og hversu mikl­um pen­ing­um það er til í að eyða í það.“

Mætt­ur út að þrífa rúður á aðfanga­dag

Ásgeir er síst þekkt­ur fyr­ir að sitja auðum hönd­um og þá gild­ir einu hvort það er venju­leg­ur mánu­dag­ur eða aðfanga­dag­ur. Hera lít­ur hins veg­ar á aðfanga­dag sem al­ger­lega heil­ag­an af­slöpp­un­ar­dag og þá megi flest verk­efni bíða betri tíma „Það á allt að vera klárt á aðfanga­dag svo ég má ekki einu sinni fara út í búð að kaupa einn rjómap­ela,“ seg­ir hann, fær sér kaffi­sopa og lít­ur sposk­ur á Heru. „Síðustu jól var hann alltaf bara aðeins að fara að gera eitt­hvað en mundi svo að það var aðfanga­dag­ur og sett­ist niður. Hann mundi það samt ekki lengi í einu því áður en ég vissi af þá heyrðist eitt­hvert hljóð fyr­ir utan og þegar ég leit út var kom­inn svamp­ur og sápu­froða á rúðuna því hann var far­inn út að þrífa glugg­ana.“ „Maður er kannski bara van­ur því að vera að vinna svona mikið en samt finnst mér ekk­ert betra en jóla­dag­ur og ný­árs­dag­ur þegar allt er lokað,“ seg­ir hann. „Það er eitt­hvert frelsi í því að geta ekki farið neitt. Mér finnst mjög skrítið þegar maður fer að versla núna á Þor­láks­messu. Það er eins og það sé heimsend­ir í nánd og fólk sé að reyna að tæma búðirn­ar. Samt er al­veg opið núna til fjög­ur á aðfanga­dag ef eitt­hvað klikk­ar. Svo er aft­ur opið ann­an í jól­um þannig að þetta er bara einn dag­ur,“ seg­ir hann og hrist­ir höfuðið.

Myndu ekki fara til Tene um jól­in

Spurð hvort þau gætu hugsað sér að fara út að borða á aðfanga­dag seg­ist Hera ekki geta hugsað sér það þar sem hún upp­lif­ir sér­staka teg­und sam­veru við mat­ar­gerðina á aðfanga­dag. „Ég er ekki týp­an sem fer til Teneri­fe um jól og ára­mót því fyr­ir mér snýst jóla­hátíðin um þess­ar fjöl­skyldu­hefðir,“ seg­ir hann og hún bæt­ir við: „Við prófuðum samt í fyrra að fara til Tene yfir ára­mót­in sem var ynd­is­legt, en snjór­inn og það að vera með allri stór­fjöl­skyld­unni á þess­um tíma hér á Íslandi á bet­ur við mig.“

Ásgeir seg­ist ekki myndu fara út að borða á aðfanga­dag ef hann væri stadd­ur hér á Íslandi um jól­in en hann fagn­ar því samt hversu marg­ir veit­ingastaðir eru farn­ir að hafa opið og bjóða jafn­vel upp á mar­grétta jóla­seðla. Veit­ingastaður­inn PÜNK, sem hann rek­ur ein­mitt á Hverf­is­göt­unni, er kom­inn í jólagír­inn og er nú með jóla­mat­seðil sem hannaður er af yfir­kokki staðar­ins, Bjarti Elí Friðþjófs­syni. Hann sam­an­stend­ur af óhefðbundnu hangi­kjöts­sal­ati á „krakk-kök­um“, humarsúpu, hrein­dýra­steik, eða bleikju fyr­ir þá sem vilja síður kjöt. „Bjart­ur okk­ar er al­veg frá­bær og hef­ur ein­stak­lega hæfi­leika­ríka kokka með sér í eld­hús­inu sem hönnuðu þenn­an seðil með hon­um. Bjart­ur var áður á Grill­markaðnum og hef­ur meðal ann­ars unnið á Michel­in-stöðum í Dan­mörku. Hann veit al­veg hvað hann er að gera,“ seg­ir Ásgeir.

Gefa sér tíma til að finna réttu gjöf­ina

Hjá mörg­um pör­um eiga jóla­gjaf­irn­ar til að breyt­ast í takt við hversu lengi fólk hef­ur verið sam­an. Til að byrja með eru þær oft afar róm­an­tísk­ar og rausn­ar­leg­ar en með tím­an­um fer fólk að kaupa eitt­hvað skemmti­legt sem bæði hafa not af og jafn­vel þró­ast þetta þannig að fólk hætt­ir að kaupa fyr­ir mak­ann. Hera teng­ir við sumt þarna. Seg­ir að í byrj­un sam­bands­ins hafi þau lagt mikið upp úr að kaupa stór­ar gjaf­ir en síðar hafi þau farið sam­an í að kaupa sér flotta kaffi­vél og annað í slík­um dúr sem hentaði báðum en síðustu ár hafa þau lagt áherslu á að gjaf­irn­ar sem þau gefa hvort öðru séu per­sónu­leg­ar og að baki þeim búi ein­læg hugs­un. „Þegar við erum að leita að gjöf­inni þá spyrj­um við okk­ur nokk­urra spurn­inga. Til dæm­is: Hvað minn­ir þig á mig? Hvað finnst mér gam­an? Hvað vant­ar mig? Svo kaup­um við gjaf­irn­ar út frá þessu. Í fyrra gáf­um við hvort öðru sex gjaf­ir,“ seg­ir Hera. Ásgeir seg­ir að fyr­ir sér snú­ist gjaf­irn­ar ekki um kostnað eða flott­heit held­ur finnst hon­um skemmti­leg­ast þegar þær koma á óvart og hitta í mark en slík­ar gjaf­ir geti skotið upp koll­in­um hvenær og hvar sem er. Rétta gjöf­in gæti þannig þess vegna verið keypt í út­lönd­um í maí og fal­in ein­hvers staðar fram að jól­um.

„Fólk kaup­ir sér yf­ir­leitt bara síma og þess hátt­ar sjálft en það er þetta með tím­ann sem mér finnst dýr­mætt. Að gefa sér tíma til að finna eitt­hvað full­komið og að það búi per­sónu­leg hugs­un að baki,“ seg­ir hann og um leið kem­ur Hera með skemmti­legt dæmi um gjöf sem hún valdi fyr­ir pabba sinn. „Fyr­ir­tækið Kölski býður upp á þannig þjón­ustu að það er hægt að láta sérsauma mynd­ir inn í fóður á jökk­um. Þegar hund­ur­inn hans pabba dó pantaði ég jakka með mynd af hund­in­um inni í fóðrinu og gaf pabba í jóla­gjöf. Það hitti sko al­veg í mark,“ seg­ir hún glöð og hvet­ur að lok­um áhuga­sama til að fylgja sér á in­sta­gram en þar birt­ir hún dag­leg­ar upp­færsl­ur und­ir nafni sínu, Hera Gísla. „Ég mun reynd­ar ekki setja neitt inn á aðfanga­dag og jóla­dag því þá erum við fjöl­skyld­an ekk­ert í sím­un­um okk­ar, en al­veg fram að Þor­láks­messu ætla ég að vera dug­leg að deila því með fylgj­end­um hvernig ég und­ir­bý þessa ynd­is­legu hátíð með öllu sem henni til­heyr­ir og von­andi get ég gefið góðar hug­mynd­ir.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: