Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, kveðst ekki hafa komist á borgarstjórnarfund í hádeginu þar sem hún sótti fund evrópsks samstarfsverkefnis fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Hún var fulltrúi Íslands á fundinum.
„Ég mat það sem svo að það væri mikilvægt að ég mætti hér,“ segir Heiða í samtali við mbl.is. Ný stjórn var kosin á fundinum og jafnréttismál einnig rædd.
Á fundi borgarstjórnar, sem enn stendur yfir, eru hagræðingartillögur og viðbrögð við miklum hallarekstri borgarinnar til umræðu.
Spurð út í hagræðingartillögur Sjálfstæðisflokksins segir Heiða það alltaf jákvætt þegar fólk leggi fram sínar hugmyndir en að hún þyrfti að fá lengri tíma til þess að fara yfir þær betur.