Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, nefndi á fundi borgarstjórnar í dag fyrri tillögu flokksins um að gerbreyta skipulagi Bílastæðasjóðs og búa til stöður borgarlandvarða.
„Borgarlandverðir sem væru líka í eftirlitshlutverki með byggingasvæðum, þannig að gangandi ættu forgang, það væri ekki freklega tekið af borgarlandinu þannig að umferðin gangi fyrir,“ sagði Líf í ræðu sinni er hún fór yfir fjárhagsáætlun borgarinnar og breytingartillögur flokksins.
Staða borgarlandvarða er þó ekki nefnd í breytingartillögunum sem lagðar eru nú fyrir borgarstjórn en Líf nefndi að flokkurinn hafi talað fyrir tillögunni fyrir kosningarnar í vor.
Í breytingartillögunum sem Vinstri græn leggja nú fyrir borgarstjórn er meðal annars lagt til að tekjuáætlun umhverfis- og skipulagssviðs verði hækkuð um 100 milljónir króna vegna stækkunar á gjaldskyldusvæði bílastæða og hækkun stöðugjalda.
Líf nefndi að gjaldskyld stæði ættu að ná yfir öll stæði í borgarlandi. Hún sagði að nú sé gjaldskylda í tæplega þrjú þúsund stæðum en ókeypis að leggja í tæplega 28 þúsund stæði í borgarlandi.
„Hvað erum við að gera? Í alvörunni,“ sagði Líf.
Þá leggur flokkurinn til að stöðugjöld og sektir vegna stöðubrota hækki um 20% á næsta ári.
„Þar getum við fengið nokkrar milljónir,“ sagði hún en áætlað er að tillögurnar um gjaldskyldu og hækkun stöðugjalda myndu skila borgarsjóði 100 milljónum króna á næsta ári.
„Segið svo ekki að við Vinstri græn hugsum líka í tekjum, við erum ekki alltaf í útgjöldum,“ sagði Líf.