Þjóðaröryggisstefna Íslands var tekin fyrir á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun. Skýrsla forsætisráðherra um mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum sem var birt í gær verður líklega rædd á fundi nefndarinnar á föstudag.
Þetta segir Bjarni Jónsson, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.
„Við fjölluðum um þjóðaröryggisstefnuna með gestum og ég vænti þess að hitt verði á dagskrá nefndarinnar á föstudaginn,“ segir hann en skýrslan er ítarleg og fer yfir fjölmörg atriði tengd þjóðaröryggismálum. Meðal annars hernaðarlega þætti, fjölþáttaógnir og varnarmannvirki.
„Við erum að fá gesti til að ræða þjóðaröryggisstefnuna og þær uppfærslur sem verða gerðar,“ segir Bjarni og bætir við að stefnan verði áfram rædd á fundum nefndarinnar.
„Þannig að þetta er allt í góðum farvegi hjá okkur held ég.“
Bjarni segist vona að stýrihópurinn sem stóð að gerð skýrslurnar geti komið á fund nefndarinnar og kynnt hana.
Hópinn skipa Þórunn J. Hafstein, ritari þjóðaröryggisráðs, dr. Valur Ingimundarson, prófessor samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra, Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, og Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu. Unnið var að verkefninu í samráði við Ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslu Íslands og Fjarskiptastofu.