Sigmar Guðmundsson, nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, segir í samtali við mbl.is að enn sé verið að meta og fara yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Nefndin fundaði í morgun og var skýrslan meðal annars rædd.
„Það voru engar ákvarðanir teknar. Þetta var í raun fundur þar sem var verið að fara yfir stöðu málsins og möguleg næstu skref,“ segir Sigmar og bætir við að ekki sé útilokað að fleiri gestir verði boðaðir á fund nefndarinnar.
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi sat fyrir svörum nefndarinnar á mánudag ásamt Jarþrúði Hönnu Jóhannsdóttur sviðsstjóra. Áður höfðu fulltrúar Bankasýslunnar komið á fund nefndarinnar sem og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og fleiri.
„Það var ekkert ákveðið formlega á fundinum eða eitthvað slegið af borðinu, þetta var í raun bara stöðumatsfundur.“
Sigmar segir að spurningum sé enn ósvarað um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. „Við erum að melta stöðuna og möguleg næstu skref“.