Ólympíuverðlaunahafinn Nile Wilson hélt nýverið fyrirlestur á vegum TED þar sem hann talaði opinskátt um baráttu sína við þunglyndi, spilafíkn, átröskun og áfengisvanda. Í fyrirlestrinum lýsir hann þeim persónueinkennum sem gerðu hann að Ólympíumeistara, en hann segir sömu persónueinkenni einnig geta orðið sér að bana.
Wilson er einn besti fimleikamaður Bretlands og hefur verið brautryðjandi fyrir íþróttina á marga vegu. Hann á glæstan fimleikaferil að baki með breska landsliðinu í áhaldafimleikum, en hann hefur unnið til verðlauna á Ólympíuleikum ásamt fjölda annarra verðlauna.
Fimleikarnir eru þó ekki það eina sem Wilson hefur náð árangri í, en hann er farsæll frumkvöðull og heldur úti vinsælli Youtube-rás með yfir 1,5 milljón fylgjendum. Á yfirborðinu virðist hann því lifa hinu „fullkomna“ lífi, en það sem færri vita er að Wilson hefur glímt við ýmis vandamál á bak við tjöldin, svo sem átröskun, spilafíkn og áfengisvanda.
„Ég er áhættusækinn, með þráhyggju og keppnisskap. Hljómar eins og nokkuð góð blanda til að búa til meistara og kannski líka fíkil,“ sagði Wilson í fyrirlestrinum. Hann sýndi fyrst einkenni þráhyggjuhegðunar þegar hann var aðeins þriggja ára gamall, en þá fékk hann algjöra þráhyggju fyrir teiknimyndinni Konungur Ljónanna frá Disney.
Wilson byrjaði svo að æfa fimleika þegar hann var fjögurra ára gamall og fékk fljótlega mikla þráhyggju fyrir íþróttinni. Hann segist fljótt hafa fengið mikið keppnisskap sem hafi án efa komið honum langt í íþróttinni, en keppnisskapið upplifði hann líka þegar hann var 18 ára og kynntist áfengi og spilavítum.
Þegar Wilson var 14 ára gamall hitti hann næringarfræðing í fyrsta skipti. Hann segist hafa hlustað á næringarfræðinginn og í kjölfarið misst nokkur kíló. Hins vegar, þegar leið á fór Wilson að upplifa mikla þráhyggju fyrir mat og því að verða léttari.
„Vikurnar liðu og allt í einu hafði ég misst tíu kíló á tveimur mánuðum - kíló sem ég þurfti ekki að missa. Ég fékk þráhyggju fyrir kaloríum og skammtastærð og kláraði aldrei af disknum mínum. Áður en ég vissi af hafði ég þróað með mér átröskun,“ sagði Wilson og útskýrði hvernig hann hafi upplifað óheilbrigða hringrás þar sem hann skiptist á að takmarka matarinntöku gríðarlega og fá átköst, þekkt sem ofátsröskun (e. binge eating).
Með fyrirlestrinum vonast Wilson til að útskýra hvernig styrkleikar okkar geti auðveldlega orðið að veikleikum okkar séu þeir ekki nýttir rétt.