Formlega gengið frá kaupunum á Vísi

Vísir hf. Grindavík er dótturfélag Síldarvinnlsunnar.
Vísir hf. Grindavík er dótturfélag Síldarvinnlsunnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Full­veld­is­dag­inn, 1. des­em­ber síðastliðinn, gengu kaup Síld­ar­vinnsl­unn­ar hf. á Vísi hf. í gegn. Margt bend­ir til að Síld­ar­vinnsl­an mun í aukn­um mæli beina bol­fiskafla sín­um til vinnslu í Grinda­vík. Ákveðið var að kaupa fé­lagið í júlí en Sam­keppnis­eft­ir­litið þurfti að taka af­stöðu til kaup­anna og samþykkti stofn­un­in kaup­in um miðjan nóv­em­ber síðastliðinn.

Nú bíða spenn­andi verk­efni er snúa að því að samþætta starf­semi fé­lag­anna á sviði bol­fisk­veiða og -vinnslu, er haft eft­ir Gunnþóri B. Ingva­syni, for­stjóra Síld­ar­vinnsl­unn­ar, í til­kynn­ingu á vef fé­lags­ins. Hann seg­ir jafn­framt ljóst að Vís­ir sé vel rekið fyr­ir­tæki og mun það styrkja Síld­ar­vinnslu­sam­stæðuna með ótví­ræðum hætti.

„Vís­ir var fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki og við kom­in á þau tíma­mót að horfa til framtíðar með rekstr­ar­formið. Við telj­um að það hafi verið mjög skyn­sam­legt að fá hluta­bréf í Síld­ar­vinnsl­unni í skipt­um fyr­ir fyr­ir­tækið og taka þannig þátt í áfram­hald­andi upp­bygg­ingu bol­fisk­hlut­ans hér í Grinda­vík,“ seg­ir Pét­ur Haf­steinn Páls­son, fram­kvæmda­stjóri Vís­is, í til­kynn­ing­unni.

„Það er bor­in mik­il virðing fyr­ir Síld­ar­vinnsl­unni og menn treysta henni í hví­vetna. Inn­an Síld­ar­vinnsl­unn­ar og í eig­enda­hópi henn­ar er að finna landsliðið í ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi. Þar er mik­il reynsla og þekk­ing. Það er til­hlökk­un­ar­efni að hefja störf inn­an sam­stæðu Síld­ar­vinnsl­unn­ar og við lít­um framtíðina björt­um aug­um,“ full­yrðir hann.

Afli til Grinda­vík­ur

Ufsi sem Berg­ur VE, tog­ari gerður út af dótt­ur­fé­lagi Síld­ar­vinnsl­unn­ar, landaði í Vest­manna­eyj­um 15. nóv­em­ber síðastliðinn var fyrsti afl­inn sem skipið hef­ur skilað til vinnslu hjá Vísi. Gera má ráð fyr­ir að skip Síld­ar­vinnsl­unn­ar muni í aukn­um mæli skila afla til vinnslu í Grinda­vík, sér­stak­lega vegna þess hve skor­inn skammt­ur er af hrá­efni um þess­ar mund­ir eft­ir um­fangs­mikl­ar kvóta­skerðing­ar síðustu ára.

Vís­ir rek­ur bæði salt­fisk­vinnslu og frysti­hús í Grinda­vík auk þess að gera út sex fiski­skip. Floti fyr­ir­tæk­is­ins sam­an­stend­ur af þrem­ur stór­um línu­bát­um, einu tog­skipi og tveim­ur króka­afla­marks­bát­um. Hjá hjá fyr­ir­tæk­inu starfa um 250 manns, 100 á sjó og 150 í landi.

Þá fylg­ir kaup­un­um einnig tölu­verðar afla­heim­ild­ir og hef­ur Vís­ir farð með 5,41% af út­hlutuðum kvóta í þorski, 6,14% í ýsu og 1,73% í ufsa.

mbl.is