„Jólatískan í ár finnst mér ráðast af skynsemi og þægindum“

Hulda Katarína Sveinsdóttir.
Hulda Katarína Sveinsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hulda Katarína Sveinsdóttir, leirlistakona og verslunarstjóri í Andrá, notar föt sem hún á um jólin eða voru keypt í nytjaverslun. Í ár er málið að bæta við einhverju persónulegu, nýju skarti eða skóm við fötin sem eru til í skápnum. 

„Jólatískan í ár finnst mér ráðast af skynsemi og þægindum en undanfarið finnst mér fólk vera meðvitaðra um hvað það er að kaupa. Það er alltaf smá extra í jólatískunni, meira glimmer, meiri glamúr. Fólk er mikið að hugsa um að nota það sem það á en bæta einhverju litlu við sem passar við flík sem það á nú þegar eins og til dæmis skarti eða nýjum skóm,“ segir Hulda.

Kaupir þú alltaf eitthvað nýtt fyrir jólin?

„Ég er alin upp við það að nota það sem er til og reyni að tileinka mér það en mér finnst alltaf gaman að finna eitthvað sem gerir mikið fyrir heildina. Ég reyni þó að hafa það fyrir reglu að vera í einhverju sem ég á nú þegar eða kemur úr nytjaverslunum.“

Í hverju ætlar þú að vera um jólin?

„Á aðfangadag ætla ég að vera í síðkjól sem ég keypti í Rauðakrossbúðinni fyrir nokkrum árum, klassískur og tímalaus. Svo eru það tvær flíkur sem skera sig verulega úr á fataslánni en það er marglita jakki og pallíettubuxur frá Stine Goya sem ég ætla að nota mikið um jólin en líka bara við önnur komandi tilefni á nýju ári – þegar mig langar að vera extra fín. Skóbúnaður jólanna verða hælar frá íslenska skómerkinu KALDA sem hafa reynst mér vel og passa nánast undantekningarlaust við allt.“

Hvað finnst þér setja punktinn yfir i-ið á jólunum?

„Ég elska að nota eitthvað sem ég á nú þegar og poppa það upp með til dæmis nýjum hring eða einhverju persónulegu sem gefur mikið vægi. Í mínu tilfelli er það perlufesti sem amma mín heitin átti og textílblómanæla. Mér finnst ég alltaf vera extra fín þegar ég set upp hvort tveggja.“

Íslenska skómerkið KALDA er í uppáhaldi hjá Huldu.
Íslenska skómerkið KALDA er í uppáhaldi hjá Huldu. ún Selma Sigurjónsdóttir

Hvað finnst þér ómissandi um jólin?

„Ristaðar möndlur að dönskum sið eru algjörlega orðnar hluti af jólastemningunni minni. Það er eitthvað við kanililminn sem liggur upp eftir Laugaveginum sem kemur frá möndluvagninum en síðustu ár hafa tveir herramenn staðið vaktina í öllum veðrum og boðið gangandi vegfarendum upp á þetta gúmmelaði.“

Hvað langar þig að fá í jólagjöf?

„Ég er algjör kertakona og elska að búa til kósí stemningu, svo mig langar rosalega í veggkertastjaka frá Frama sem fæst hjá góðvinum mínum í Mikado Reykjavík. Tímalaus og falleg hönnun,“ segir Hulda.

Hulda er leirlistakona.
Hulda er leirlistakona.

Hvernig verða jólin í ár?

„Jólin hjá mér undanfarin ár sem verslunarstjóri hafa alltaf verið eins og hálfgerð vertíð og það verður engin undantekning á því í ár þar sem það er mikið að gera hjá okkur í Andrá á þessum árstíma. Jólin mín verða sniðin að því að vera með fólkinu mínu, vera duglegri að fara með þakklætisbænir en fyrst og fremst einbeita mér að því að vera í núinu og njóta,“ segir Hulda.

Keramíkskál eftir Huldu.
Keramíkskál eftir Huldu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: