Átján gráða frost í Húsafelli

Heimskautaloft leggur að landinu og frystir vatn sem áður rann.
Heimskautaloft leggur að landinu og frystir vatn sem áður rann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Átján gráða frost mældist í Húsafelli í nótt. Er þetta mesti kuldi sem mælst hefur á landinu í dag, eða frá miðnætti.

Kaldast var þar í nótt, en síðustu klukkustund hefur frostið mælst 16,8 gráður, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Næstmesti kuldinn á láglendi hefur mælst í Stafholtsey í Borgarfirði, eða 16,2 gráða frost, og hefur hitastig þar lítið hækkað frá því marki.

Eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag eru fyrirstöður í háloftunum að rofna og kalt heimskautaloft úr norðri leggur að Íslandi.

Lægð gæti fylgt

Búast má því við að síðari hluta vikunnar verði tíu gráða gaddur víða í byggðum landsins og á láglendi.

Í framhaldi gæti fylgt lægð og með henni töluverður snjór.

mbl.is