Landsvirkjun og Landeldi hf. hafa samið um sölu og kaup á allt að 20 MW raforku til nýrrar laxeldisstöðvar Landeldis í Þorlákshöfn.
Í tilkynningunni frá Landsvirkjun segir að viðræður hafa staðið yfir frá árinu 2021.
Á vatnstökusvæði Landeldis í Þorlákshöfn hefur fyrirtækið aðgang að ferskvatni og jarðsjó við kjörhitastig allt árið um kring.
„Græna orkan okkar er afar eftirsótt auðlind og orkufyrirtæki þjóðarinnar vill forgangsraða orkusölu til verkefna sem styðja við verðmætasköpun og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Laxeldisstöð Landeldis er einmitt slíkt verkefni. Við hjá Landsvirkjun erum spennt fyrir framhaldinu, þessari einstöku nýsköpun sem jafnframt er fyrsti stórnotandinn á helsta orkuvinnslusvæði okkar á Suðurlandi,“ er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunnar, í tillkynningunni.
„Samningurinn við Landsvirkjun er undirstaða okkar starfsemi. Landeldi í Þorlákshöfn er framsækið nýsköpunarverkefni og í samningnum felst viðurkenning á vegferð okkar í að bæta hringrásarhagkerfið. Jafnframt ber samningurinn og stærð hans vott um vel nýtt samkeppnisforskot sem við Íslendingar búum að í umhverfisvænni sjálfbærri raforku. Lax Landeldis er holl og góð vara, sjálfbær matvælaframleiðsla og svarar kallinu eftir auknu matvælaöryggi,“ er haft eftir Halldóri Ólafi Halldórssyni, stjórnarformanni Landeldis, í tilkynningunni.