Neyðarskýlin í Reykjavík verða öll opin á morgun, föstudag. Neyðaráætlun í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir hefur verið virkjuð vegna þess mikla kulda sem spáð er á morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.
Samkvæmt neyðaráætluninni eru skýlin opin allan sólarhringinn þegar veðurskilyrði eru á þann veg að einstaklingum sé hætt við ofkælingu eða alvarlegum slysum, en undanfarna daga hefur verið talsvert frost á höfuðborgarsvæðinu og reyndar landinu öllu. Í nótt og á morgun er svo jafnframt spáð enn meira frosti og svo aftur í lok helgarinnar. Tekið er fram í tilkynningunni að staðan verði metin dag frá degi vegna kuldans.
Neyðarskýlin eru þrjú, tvö fyrir karlmenn, við Grandagarð og á Lindargötu, og eitt fyrir konur, Konukot í Eskihlíð.
Samkvæmt tilkynningunni byggir neyðaráætlunin á samvinnu allra viðbragðsaðila í Reykjavík, bráðamóttöku Landspítala Háskólasjúkrahúss, lögreglu, Rauða krossins, forsvarsmanna tjaldsvæða, Vettvangs- og ráðgjafateymis Reykjavíkurborgar (VoRteymis) og neyðarúrræða fyrir heimilislausa.