Fía Ólafsdóttir, hársnyrtir og áhugabakari, nýtur þess að nostra við bakstur og innpökkun gjafa í aðdraganda jólanna. Ilmurinn í eldhúsinu kemur Fíu í jólaskap.
„Ég elska jólin og sérstaklega aðventuna. Alla jólahittingana, stemninguna, ljósin og tónlistina. Ég stelst stundum til að hlusta á jólalög þótt það sé jafnvel vor eða sumar,“ segir Fía.
Hvað kemur þér í jólaskap?
„Það þarf ekki mikið til að koma mér í jólaskap, en það sem mér dettur fyrst í hug er ilmurinn af gulum saffransnúðum sem við mamma höfum bakað saman í desember frá því ég man eftir mér.“
Hvað finnst þér ómissandi að gera á aðventunni?
„Ég held aðventuna hátíðlega, kveiki á mörgum kertum. Mér finnst gaman að pakka inn svo ég dreifi því vel yfir nóvember og desember, dúlla við það, horfi á Christmas Vacation, fæ mér malt og appelsín og smákökur.“
„Ég baka yfirleitt það sama, en bæti oft við einhverju sem ég hef ekki gert áður. Sörubakstur með ömmu og saffransnúðar með mömmu verður samt alltaf að vera. Mér finnst mun skemmtilegra að baka en elda en geri það þó stundum. Maggi minn er annars helsti kokkurinn á heimilinu enda agalega flinkur í því,“ segir Fía.
„Á jólunum borðum við purusteik, með brúnuðum kartöflum, eplarauðkáli, sveskjum og sósu auðvitað, en það er brún sósa með mysingi. Langamma mín Alda kenndi mér það, sem er algjört lykilatriði. Svo er það riz à l'amande sem mamma gerir, ég veit að öllum finnst sennilega þeirra riz à l'amande best, en ég lofa; þetta er einstakt og með marsípani.“
Eru einhver jól eftirminnilegri en önnur?
„Eftirminnilegustu jólin eru sennilega þegar ég fékk fallega trúlofunarhringinn minn á aðfangadagsmorgun, þar sem ég horfði á jólabarnatímann á gólfinu heima með strákunum mínum.“
Hvernig verða jólin í ár?
„Jólin í ár verða frekar hefðbundin, annað væri óþægilegt. Fjölskyldan hittist heima hjá mér og við borðum, opnum gjafir og spilum. Svo eru það jólaboðin, en ég hef alltaf mjög gaman af þeim.“
„Kökurnar sem ég bakaði fyrir jólablaðið heita möndlukúlur og eru ekki beint jóla en ég hef gert þær að jóla í mínum hefðum. Marsípan og fallegt rautt ber er bara svo hátíðlegt og gott á bragðið.“
Möndlukúlur
Hráefni:
200 g mjúkt smjör
200 g rifið marsípan
3 dl hveiti
1-2 eggjahvítur
100 g möndluflögur
kirsuberjakokteilber
Aðferð:
1. Hitið ofninn í 175 gráður.
2. Hrærið smjörið létt, bætið svo rifnu marsípani og hveiti út í smjörið.
3. Mótið deigið í þunnar rúllur, skerið þær í jafna bita og myndið kúlur.
4. Penslið kökurnar með eggjahvítu, veltið þeim upp úr möndlumjölinu og raðið á bökunarpappír.
5. Skreytið kökurnar með kokteilberi, skornu í tvennt eða smærri bita.
6. Bakið kökurnar í 8-10 mínútur, auðvitað mismunandi eftir ofnum. (Ættu að verða um 40 kökur.)