Beðið beggja vegna Reykjanesbrautar

Sjö rútur Snælands bíða mannlausar við Straumsvík og 370 farþegar …
Sjö rútur Snælands bíða mannlausar við Straumsvík og 370 farþegar bíða sömuleiðis eftir þeim í Leifsstöð. Ljósmynd/Jón Ragnar Ólafsson

Sjö tómar rútur hafa verið kyrrstæðar við álverið í Straumsvík og 370 farþegar hafa beðið eftir þeim í Leifsstöð frá því um klukkan tíu í morgun. 

„Þessar rútur eru tómar á leið til Keflavíkur að reyna að sækja 370 manns sem lentu í Keflavík í morgun, þær komast ekki. Þær eru búnar að bíða þarna í 3-4 tíma og fólkið hinum megin líka,“ segir Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri rútufyrirtækisins Snælands Grímssonar.

„Við getum ekki haft fólkið þarna úti á flugvelli, það á bókaða gistingu í bænum í nótt. Ég veit ekki hvar á að láta þau sofa.“

„Það er voðalega erfitt að bregðast við þegar kemur gul viðvörun og er lokað þegar 370 manns eru komnir í loftið og á leiðinni. Þú snýrð þeim ekkert við eins og ekkert sé og segir þeim að vera heima.“

Veðrið ekki svo slæmt

Hallgrímur segir bílstjórana undrast það að veginum sé haldið lokuðum því veðrið sé alls ekki slæmt. Á vefmyndavélum sjáist að það sé auður vegur á Strandarheiði og við Rósatorg í Keflavík sé slæmt skyggni, en þar sé samt umferð.

„Án þess að ég ætli eitthvað að gagnrýna þá sem taka þessa ákvörðun, þá er mikill ábygðarhluti að loka þessum vegi svona lengi. Mér finnst allt í lagi að menn velti þessu upp án þess að ég ætli eitthvað að dæma,“ segir Hallgrímur.

„Það er ekki hægt að ná í neinn sem getur gefið upplýsingar um stöðu eða framhald á þessum lokunum. Ég held að það hljóti að vera hægt að sjá til þess að bílarnir geti farið og sótt fólkið – þarna eru vanir bílstjórar á ferð.“

mbl.is