Nú styttist í að Reykjanesbrautin verði opnuð á ný en áður en það verður gert verða ellefu rútur sendar í bílalest til Reykjavíkur með farþega úr flugstöðinni.
Reykjanesbrautin er lokuð eins og er en G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir styttast í að hún verði opnuð.
„Allar fráreinar [á Reykjanesbrautinni] eru fullar af snjó og þessi venjulegu snjóruðningstæki með tönn framan á ná ekki að fara í gegnum það, þannig að það þarf að moka út,“ segir Pétur í samtali við mbl.is.
„Það er hluti af ástæðunni fyrir því að það tefst aðeins að opna. Menn komast til Keflavíkur en ekki annað því það er ekki hægt að komast út af brautinni.“
„Það styttist í að það opnist, en hvenær það verður nákvæmlega er mjög erfitt að segja,“ segir Pétur.
Til standi að ferja hundruð farþega frá Leifsstöð í ellefu rútum sem eru á staðnum.