Plokkfiskur grunnskólabarna varð veðurtepptur

Flest öll­um leiðum frá höfuðborg­ar­svæðinu hef­ur verið lokað, meðal ann­ars …
Flest öll­um leiðum frá höfuðborg­ar­svæðinu hef­ur verið lokað, meðal ann­ars Reykja­nes­braut­inni og er óvíst hvenær opnað verði aft­ur fyr­ir um­ferð þar. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum að berjast í því á öllum stöðum,“ segir Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar, spurður hvernig hafi gengið að koma hádegismat til þeirra rúmlega 70 leik- og grunnskóla á suðvesturhorninu sem fyrirtækið þjónustar. 

Fyrirtækið útbýr allan mat í Reykjanesbæ og keyrir hann út en Reykjanesbrautin hefur verið lokuð frá því í morgun. 

Skólastjóri grunnskóla Seltjarnarness sendi foreldrum tölvupóst rétt fyrir hádegi þar sem sagði að börnin væru að bíða eftir pitsum þar sem að Skólamatur kæmist ekki með plokkfiskinn á áfangastað. 

Það fer vel um börnin en við vonum virkilega að pitsusendillinn komi fljótt,“ sagði í póstinum.

Ekki heyrt af neinum sem fékk ekki að borða

„Við erum búin að vera að keyra neyðaráætlun núna sem gengur út á að nýta matarbirgðir sem við erum með á birgðastöðum sem eru dreifðar um svæðið sem við þjónustum. Við höfum verið að dreifa þaðan í samstarfi við birgja sem eru að vinna fyrir okkur mat,“ segir Jón. 

Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar.
Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar.

Er blaðamaður náði tali af Jóni sagðist hann vera að fá upplýsingar um hvernig hafi gengið.

„Það hefur verið barátta að koma fólki til vinnu og að koma þessum matvælum sem við eigum milli staða. Það hefur verið baráttuverkefni okkar í dag.“

Hann segir að mæting barna í skólanna hafi verið misjöfn, sérstaklega á Suðurnesjunum, en samt megi áætla að þúsundir barna eigi að fá mat frá Skólamat í dag. 

„Við teljum okkur vera að ná utan um alla, allir hafi fengið að borða í dag. Ég hef ekki heyrt af neinum enn þá sem ekki fékk mat en það er búið að beita ýmsum leiðum til þess að koma matnum á staðinn,“ segir Jón. 

Hann segir að fyrirtækið verði áfram með ráðstafanir á morgun en þá verði þó færri í mat þar sem margir grunnskólar verða komnir í jólafrí. 

mbl.is