Tafir og krókaleiðir hjá íslenskri fjölskyldu

Reykjanesbrautin reyndist þung um helgina en Guðmundur og fjölskylda óku …
Reykjanesbrautin reyndist þung um helgina en Guðmundur og fjölskylda óku hana á föstudagskvöldið. Ljósmynd/Landsbjörg

Fyrirhuguð ferð hjá Guðmundi Erni Magnússyni og fjölskyldu til Taílands hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig.

Þar stendur til að eyða jólum og áramótum en fjölskyldan var stödd á Arlanda-flugvellinum í Stokkhólmi þegar mbl.is ræddi við Guðmund. Samkvæmt upphaflegum áætlunum hefðu þau verið komin á leiðarenda í gær en margt fer öðruvísi en ætlað er þegar veturinn knýr dyra á ævintýraeyjunni. 

Voru þau svo ólánsöm að til stóð að fljúga frá Keflavík þegar fyrsta snjóinn festi á höfuðborgarsvæðinu þennan veturinn. Þegar loks fennti eftir rólegan vetur þá fennti linnulaust frá því á föstudagskvöldið og fram eftir laugardegi. 

Til að bregðast við þeirri veðurspá ákváðu þau að keyra til Keflavíkur á föstudagskvöldið til að lenda ekki í vandræðum með að komast í Leifsstöð á laugardagsmorgni. Hrepptu þau leiðindaveður en komust þó á hótel í Keflavík þar sem þau eyddu nóttinni. Þar af leiðandi voru þau ekki í vandræðum með að ná vélinni sem bar þau til Kaupmannahafnar. Í gamla höfuðstaðnum stóð til að taka tengiflug áfram til Bangkok. 

Að sögn Guðmundar leiddi röð óheppilegra atvika til þess að eftir tæplega fimm klukkustunda setu í flugvél Icelandair höfðu þau ekki enn yfirgefið jörðina eins og flugfarþegar vænta við slíkar aðstæður. Þá var orðið ljóst að þau myndu ekki ná tengifluginu frá Kaupmannahöfn til Bangkok. 

Vélin afísuð í þrígang

„Afísa þurfti vélina þrívegis á Keflavíkurflugvelli auk þess sem vaktaskipti urðu hjá þeim sem afísa. Bíllinn sem keyrir vélarnar út á völlinn festist og þetta þróaðist þannig að okkur var tilkynnt reglulega um hálftíma seinkun á brottför eftir að við vorum komin um borð.

Við sátum í vélinni í fjóra eða fimm klukkutíma áður en við fórum af stað. Það var ansi þungt með alla litlu krakkana,“ segir Guðmundur en með honum og Helen Hannesdóttur í för eru þrjú börn á aldrinum eins og hálfs árs, tveggja og hálfs árs og fjögurra og hálfs árs. Ferðalangarnir eru á ýmsum aldri, og sumir mun sjóaðri en börnin, því tvær ömmur eru einnig í hópnum. 

Fjölskyldan sat ásamt öðrum farþegum í tæpa fimm klukkutíma á …
Fjölskyldan sat ásamt öðrum farþegum í tæpa fimm klukkutíma á flugvellinum í Keflavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugfélögin bent hvort á annað

„Við létum strax vita um borð að við myndum ekki ná tengifluginu en pöntunin var öll á einum miða,“ segir Guðmundur og tekur fram að misvísandi upplýsingar hafi borist um hvort Icelandair eða Thai Airways beri ábyrgð á að koma þeim áfram til Taílands. Flugfélögin hafi í raun bent hvort á annað en ljóst er að Thai Airways eiga miðann og hafa tök á að breyta honum. 

„Við vorum einnig óheppin með að lenda í þessu um helgi og þá er enn erfiðara en ella að fá aðstoð. Við náðum þó að vera í sambandi við Icelandair alla helgina en þau gátu ekki gert neitt fyrir okkur. Í nótt náðum við sambandi við Thai Airways en lítið kom út úr því.

Það vantaði að mér fannst mennska lausn á málinu. Það vita allir um hvað þetta snýst en það virðast alltaf einhver kerfi koma í veg fyrir að hægt sé að bregðast við og hjálpa fólki. Tímasetningin er auk þess óheppileg því þúsundir flugfarþega lentu í vandræðum,“ segir Guðmundur en í morgun tók við óvænt atburðarás. 

Á þeytingi til Stokkhólms

„Staðan var orðin þannig að við töldum að við þyrftum að eyða jólunum í Kaupmannahöfn, með sundföt og sólarvörn, og myndum ekki geta flogið til Taílands fyrr en eftir marga daga. Í morgun náðum við sambandi við Thai Airways og þá kom í ljós að laust var í aukaflug til Taílands frá Stokkhólmi. En til að ná því þyrftum við að skila okkur á Kastrup í Kaupmannahöfn á korteri eða svo.“

Parið, börnin og ömmurnar settu í fimmta gír og náðu fluginu til Stokkhólms. „Við rétt náðum inn á flugvöll og fórum með SAS til Stokkhólms,“ segir Guðmundur en þau voru að bíða eftir fluginu til Taílands þegar hann ræddi við mbl.is 

Útlitið var því orðið öllu bjartara en þó er einn leggur eftir hjá þeim ennþá sem er innan Taílands því þau ætla ekki að dvelja í Bangkok.

„Þar erum við á einhverjum biðlista í síðasta fluginu og því er enn óvissa um hvort við náum að komast á hótelið okkar í Taílandi. En það hafa allir tekið þessu með stóískri ró enda er ekki annað hægt. Það þýðir ekkert að kalla yfir sig hjartsláttatruflanir,“ segir Guðmundur og virkar furðu yfirvegaður í símanum miðað við aðstæður. 

Hann biður blaðamenn um að gera umfjöllina ekki of dramatíska því fjöldi flugfarþega hafi lent í vandræðum og eflaust hafi margir það verra en þau. Hann taki fyrst og fremst út úr þessari reynslu hversu ósveigjanleg mannanna verk séu í flugbransanum.

„Computer says no virðist vera svo ríkt,“ segir Guðmundur.

mbl.is