Tunnur mögulega ekki tæmdar fyrir jól

Íbúar hafa víða þurft að moka bifreiðar sínar út úr …
Íbúar hafa víða þurft að moka bifreiðar sínar út úr snjósköflum. mbl.is/Árni Sæberg

Reykvíkingar eru beðnir um að moka frá sorptunnum sínum og tryggja að gönguleiðir séu greiðar að þeim svo að starfsfólk sorphirðunnar komist að til að tæma þær. Þá eru íbúar einnig minntir á mikilvægi þess að bílar og annað hindri ekki aðgengi að sorpgerðum. 

Ef starfsfólk sorphirðunnar kemst ekki að tunnunum til þess að losa þær gæti það neyðst til að skilja tunnurnar eftir. Þá er óvíst að það náist að tæma þær fyrir jól. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Sorphirðan er að störfum í Breiðholti í dag og á morgun. Eftir það verður farið í Árbæ og Grafarvog. Unnið er klukkutíma lengur á dag til að reyna að losa allt fyrir jólin en aðfangadagur rennur upp næstkomandi laugardag, sem kunnugt er.

Í tilkynningunni frá borginni eru íbúar enn fremur minntir á að flokka vel og nýta grenndar- og endurvinnslustöðvar ef endurvinnsluefnið rúmast ekki í tunnunum.

mbl.is