Björgunarsveitin bjargaði fæðingunni

Gunnar Máni og Karen Björk Hafsteinsdóttir voru að vonum sátt …
Gunnar Máni og Karen Björk Hafsteinsdóttir voru að vonum sátt við hjálpina. Hér eru þau með nýfæddum þriðja syni sínum. Ljósmynd/Aðsend

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík kom Gunnari Mána Arnarsyni og Karen Björk Hafsteinsdóttur til bjargar í gærmorgun þegar þau þurftu að komast á fæðingardeild Landspítalans í vonskuveðri og slæmri færð.

Í samtali við mbl.is segir Gunnar Máni að hríðir hafi hafist hjá Karen, eiginkonu hans, þá um morguninn. Í kjölfarið hafi þau sett sig í samband við björgunarsveitina Þorbjörn í Grindavík en þau búa þar ásamt tveimur sonum sínum.

Komu innan tíu mínútna

Hann segir að björgunarsveitin hafi verið komin til þeirra innan tíu mínútna til að koma þeim á fæðingardeildina.

Hann bætir við að það hafi komið honum á óvart að þau hafi verið sett í forgang hjá björgunarsveitinni og að þau hafi nánast fengið samviskubit þar sem þeim leið eins og þau væru að stela hjálp frá einhverjum öðrum.

Að sögn Gunnars Mána gekk fæðingin vel og þriðji sonur þeirra hjóna kom í heiminn í gær. 

„Hún gekk vel, allir heilbrigðir og hún tók skjótt af.“ 

Sami bílstjóri kláraði jólasöguna

Gunnar Máni segir að nánast sé um jólakraftaverk að ræða. En kynnum fjölskyldunnar af björgunarsveitinni var ekki enn lokið.

„Sami bílstjórinn og sótti okkur í gær fékk símtal frá sínum svæðisstjóra, um það hvort hann vildi ekki klára jólasöguna sína og taka þetta barn, sem var að koma í heiminn, á fyrsta rúntinn sinn.“

Ofmeta sjálfa sig og vanmeta aðstæður

Fjölskyldan er því núna komin aftur til Grindavíkur, þökk sé björgunarsveitinni. Gunnar Máni segist mjög þakklátur öllum í Þorbirni og tekur fram að þau hefðu ekki komist á leiðarenda án þeirrar hjálpar.

Aðstæður á veginum hafi verið mjög slæmar, bæði í dag og í gær.

„Íslendingar eiga það til að ofmeta sjálfa sig og vanmeta aðstæður. Þegar við keyrðum brautina í gærmorgun vorum við ekki hissa á því að hún væri lokuð.“

mbl.is