Hraunaði yfir björgunarsveit með keðjusög á lofti

Snjómokstur á Reykjanesbraut og Tómas Logi, að lokinni langri vakt.
Snjómokstur á Reykjanesbraut og Tómas Logi, að lokinni langri vakt. Samsett mynd

Tómas Logi Hallgrímsson, björgunarsveitamaður til tæplega tveggja áratuga, segist ekki muna eftir jafn umfangsmikilli björgunaraðgerð og hann tók þátt í um helgina.

Síðustu þrjá daga hefur Tómas varið 50 klukkustundum í björgunarstarf.

Tómas lýsir því fyrir mbl.is að margt hafi gengið á og alls ekki allir verið ánægðir með störf hans og jafnvel hafi fólk farið þvert á fyrirmæli björgunarsveita.

Fólk þurfi að setja sig í fótspor björgunarmanna

„Það felst í því að fólk er að troðast, þegar það er allt stappað á gatnamótum og maður er að reyna að losa sem flesta og greiða fyrir, þá biður maður fólk um að bíða en það skýst í fyrstu glufu sem það sér og þá er vandamálið orðið miklu stærra. 

Þetta tekur á geðið þegar þetta gerist trekk í trekk. Síðan er fullt af vitleysingum sem hreyta einhverju í mann, það er bara þannig. Ég vil ekki fara út í það en maður hefur heyrt ýmislegt,“ segir Tómas.

Kann samfélagið að meta björgunarsveitarmenn?

„Jú, ég held að samfélagið kunni að meta björgunarsveitamenn. Ég held að það kunni bara ekki að setja sig í fótspor okkar. Ég held að það sé vandamálið, fólk gerir sér ekki endilega grein fyrir því að þegar það mætir mér þá er ég búinn að vera að í 18-20 tíma, orðinn pirraður út í allt og alla.

Ég held að það skilji ekki afleiðingarnar þegar það er að troðast og slíkt. Ég held að það sé ekki vanþakklæti. Fólk gerir sér ekki grein fyrir því sem það er að segja.“

Gefandi þrátt fyrir fýlupúka

Tómas lýsir fyrir blaðamanni skondnu atviki þegar hann og aðrir björgunarmenn komu að manni sem var að glíma við snjóskafl með keðjusög. Hann hafi verið fokillur og hreytt fúkyrðum í björgunarsveitina.

„Þetta var skondið að vera þarna með brjálaðan mann með keðjusög. Hann var ekki að ógna okkur, en þetta var skemmtilegt bíó að horfa á þetta.“

Af hverju að verða björgunarsveitamaður?

„Þegar þú ert kominn með fólk inn í bíl sem var hrætt um líf sitt og hélt í alvörunni að það væri að fara deyja, það gefur þér rosalega mikið. Líka þegar þú sérð brosið á fólki sem þú ert búinn að aðstoða, það gefur þér svo svakalega mikið. Það vegur tvöfalt, þrefalt á móti því sem fýlupúkarnir eru að gera.“

mbl.is