Öllum brögðum í bókinni beitt

Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segist ekki geta svarað því með vissu hvenær verði búið að vinna úr þeim hala sem myndaðist þegar flugferðum var aflýst vegna lokunar Reykjanesbrautar.

Hann er þó bjartsýnn á að það takist fyrir jól.

Play hefur ákveðið að bæta við tveimur flugvélum í sinn flota til þess að vinda ofan af ástandinu.

„Við erum að reikna með því að, ef veður leyfir og áætlanir haldast, þá geti reglubundið áætlunarflug hafist á morgun,“ segir hann.

„Þá er eftir að vinna upp ákveðinn hala sem við erum gera með því að bæta við flugvélum. Það sem við erum að vinna eftir er að reyna að koma fólki til síns heima fyrir jólin, en ég þori ekki að segja nákvæma tímasetningu.“

Mikið í húfi fyrir ferðalanga

Birgir segir flugfélagið vita hvað er í húfi fyrir ferðalanga og því sé ekki verið að horfa til kostnaðar, heldur aðeins verið að reyna að koma öllum á áfangastað fyrir jól.

„Við fórum með áhafnirnar okkar með [flugfélaginu] Erni frá Reykjavíkurflugvelli og lentum í Keflavík. Þá vorum við tilbúin þegar farþegarnir komu, svo myndaðist algert öngþveiti í Leifsstöð. Það er eins og ég segi, búið að taka öll trikkin í bókinni til þess að koma þessu í gang.“

Fimm vélar Play komust í loftið áðan og segir Birgir að því hafi verið fagnað á Keflavíkurflugvelli og að ánægjulegt sé að það hafi tekist.

Úr vefmyndavél Vegagerðarinnar á Reykjanesbraut um hádegi í dag.
Úr vefmyndavél Vegagerðarinnar á Reykjanesbraut um hádegi í dag. Ljósmynd/Vegagerðin

Hafi ekki neikvæð áhrif á orðspor Íslands

Spurður hvort hann telji þetta hafa áhrif á Ísland sem áfangastað segir Birgir að svo sé ekki.

„Ég held að þetta hafi ekki mikil skemmandi áhrif í raun og veru. Ég held að allt svona bæti mögulega orðspor Íslands, sem kvikur staður þar sem náttúran er lifandi.

Það er það sem fólk leitar að hérna, en auðvitað þeir farþegar sem lentu í þessum hremmingum eru kannski ekki líklegir að koma aftur,“ segir Birgir og tekur fram að fáir farþegar frá Play hafi lent í hremmingum þar sem flugfélagið aflýsti öllum sínum flugferðum til Ameríku á sunnudag.

Ættum að hugsa okkur vel um

„Ég held aftur á móti að við á Íslandi ættum að hugsa okkur vel um hvar við erum stödd í innviðamálum, það eru alls konar spurningar sem vakna um Reykjanesbrautina og hvernig verklagið í kringum hana er.

Hvort við þurfum einn eða tvö flugvelli og alls konar hluti sem ég held að við þurfum mjög alvarlega að fara að horfast í augu við. Við erum hreinlega eftir á þegar það kemur að innviðum í þessu landi. Við megum ekki við neinu, þá hrynur kerfið.“

mbl.is