Play fjölgar í flotanum vegna veðurtafanna

Farþegaþota frá Play. Félagið fjölgar nú vélum til að vinna …
Farþegaþota frá Play. Félagið fjölgar nú vélum til að vinna upp tafir vegna veðursins síðustu daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugfélagið Play flytur nýja farþegaþotu til landsins, sem áætlað var að kæmi til landsins í vor en kemur þess í stað á morgun til að létta undir í því ástandi sem ríkt hefur og skapað tafir og aflýsingu flugferða. Greinir félagið frá þessu í fréttatilkynningu.

„Veðrið hefur sannarlega gert ferðalöngum óleik síðustu daga og raskað flugáætlunum verulega. Eins og staðan er núna er Reykjanesbrautin opin og eru flugferðir PLAY til Alicante og Tenerife í dag á áætlun. Farþegar sem eiga bókað í þær ferðir í dag hafa fengið skilaboð þess efnis,“ segir þar.

Þá fari þrjú ferjuflug til Bandaríkjanna í dag og komi þær vélar með farþega frá austurströndinni til baka í fyrramálið enda þá reiknað með að áætlunarflug verði komið í skorður á nýjan leik.

Veðurglugginn knappur

„Ástæðan fyrir því að þotur PLAY munu fara án farþega er sú að veðurgluggi til að taka af stað til Bandaríkjanna í dag er knappur og farþegar munu ekki ná í tæka tíð fyrir brottför,“ segir enn fremur í tilkynningunni sem svo greinir frá því að áhafnir félagsins hafi verið fluttar með flugi frá Reykjavík til Keflavíkur.

Auk þotunnar sem kemur til landsins á morgun verða aðrar teknar á leigu svo tryggja megi að farþegar félagsins komist á áfangastaði sína fyrir jól svo lengi sem flugvöllurinn og Reykjanesbraut séu opin.

„Unnið er að því hörðum höndum að láta það verða að veruleika og þökkum við öllum fyrir veitta þolinmæði á þessum krefjandi tímum sem við stöndum frammi fyrir,“ segir að lokum í tilkynningu Play.

mbl.is