Langt komnir með að ryðja allar húsagöturnar

Starfsmenn vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar reikna með að komast í síðustu húsagöturnar …
Starfsmenn vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar reikna með að komast í síðustu húsagöturnar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsmenn á vegum vetrarþjónustu Reykjavíkur eru langt komnir með að ryðja allar húsagötur borgarinnar og reikna þeir með á að ná því í dag. Snjómoksturstæki hafa verið að störfum í efri byggðum Reykjavíkur í dag og eiga starfsmenn ekki langt í land.

Guðjón Vilhjálmur Reynisson, starfsmaður vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar, segir að betur hafi gengið að moka í dag heldur en í gær þegar gul viðvörun vegna veðurs var í gildi. 

„Í gær var leiðindaveður í austurhlutanum svo það gekk miklu hægar heldur en að maður hefði vonað. Það blés í götur aftur sem var verið að opna og svo festust bílar og þá þurfti að færa vélar til á þá staði. Þetta var svona fram og til baka mikið. Þetta er ekki auðvelt.“

Yrðu fram á vor ef þeir

Stofngötur í borginni eiga að vera færar en að sögn Guðjóns er unnið að því að breikka þær núna.

Á sama tíma og verið er að moka snjó af götum borgarinnar hefur snjóruðningur þó safnast fyrir mörgum bílastæðum. 

„Veistu það, ef að við ættum að eltast við það líka þá yrðum við ekkert búnir fyrr en í vor,“ segir Guðjón, spurður hvort hann sjái fram á að moka frá bílastæðunum.

mbl.is