NBC fjallar um kraðakið í Leifsstöð

Farþegar hafa látið í sér heyra á samfélagsmiðlum.
Farþegar hafa látið í sér heyra á samfélagsmiðlum. Ljósmynd/Aðsend

Farþegar sem voru fastir í Leifsstöð frá föstudeginum létu í sér heyra á samfélagsmiðlum og náði fréttastofa NBC tali af tveimur þeirra í gær.

Parið Becky og Robert segir Leifsstöð hafa brugðist skyldum sínum gagnvart farþegum sem voru strandaglópar á Keflavíkurflugvelli, en lokunin á Reykjanesbraut hafði áhrif á tengifarþega, komufarþega og brottfararfarþega.

Með veikt barn sem svaf á bekk

Þá var einnig rætt við skoskan farþega, Tom Stirling 43 ára, sem sat fastur á flugvellinum ásamt konu sinni og tveimur sonum á aldrinum tíu og átta ára. Svaf hann á gólfinu á meðan átta ára sonur hans lagði sig á bekk á meðan hann var með hita. 

„Ég skil að veðrið hafi áhrif. En þetta skipulagsleysi og þessi óreiða... það ætti aldrei að fljúga fólki hingað vitandi hver veðurspáin er.“

Þá gagnrýndu farþegar einnig að einungis ein verslun væri á svæðinu en engan hlýjan fatnað væri að fá á meðan gist var á vellinum. Haft var samband við bandaríska sendiráðið, sem tjáði farþegum að það hefði haft samband við flugmálayfirvöld vegna málsins.

Farþegar hafa látið í sér heyra á samfélagsmiðlum vegna ástandsins sem skapaðist, sem talið er að eigi sér engin fordæmi.

mbl.is