„Nú erum við að vinna í því að rétta okkur af aftur og ná áætlun,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is og bætir því við að eitthvað hafi borið á seinkunum í morgun eins og alltaf eftir daga á borð við þá sem nýliðnir eru með fannfergi og ófærð.
„Við höfum verið að bæta inn aukavélum til að koma öllum á áfangastað fyrir jólin, leigja inn aukavélar og nýta vélar sem hafa verið í leiguverkefnum til að auka afköstin,“ bætir hann við og segir ekki ljóst enn sem komið er hvenær flugfélagið nái að vinna upp þær tafir sem orðið hafa á starfseminni síðustu daga, nú vinni starfsfólk bara á fullum afköstum og geri sitt besta.
„Það er bara staðan,“ segir upplýsingafulltrúinn að lokum.