„Upplýsingagjöfin er núll“

Fjölda flugferða var aflýst vegna lokunar Reykjanesbrautar.
Fjölda flugferða var aflýst vegna lokunar Reykjanesbrautar. mbl.is/Eggert

Íslendingi, sem situr fastur í Boston ásamt fjölskyldu sinni eftir að flugi þeirra með Play Air í fyrradag var aflýst vegna veðurs, var boðið flug heim til Íslands á Þorláksmessu.

Fjölskyldan kæmi því ekki heim fyrr en að morgni aðfangadags.

„Upplýsingagjöfin frá flugfélögunum til fólks sem er erlendis er engin,“ segir Jóhann Bergmann Halldórsson, sem býst við að þurfa að leggja út 100 þúsund krónur á dag aukalega, ásamt 400 þúsund krónum fyrir flugi heim.

Jóhann Bergmann Halldórsson.
Jóhann Bergmann Halldórsson. Ljósmynd/Aðsend

100 þúsund aukalega á dag

„Í morgun [í gær] fann ég flug með Icelandair heim. Inni á íslensku síðunni var ekkert laust, síðan fór konan mín inn á amerísku síðuna þeirra í morgun og þá var allt í einu laust, og miklu ódýrara á amerísku síðunni,“ segir hann.

Flugið á morgun kostar 400.000 krónur en hefði kostað 245 þúsund á mann á íslensku síðunni að sögn Jóhanns, sem jafngildir um 1,2 milljónum króna í heild.

„Ég sendi Play Air póst á messenger og fékk svar í morgun einhvern tímann á okkar tíma. Sagt að þeim þætti leiðinlegt hvernig fór en hvergi minnst á hótel, hvorki eitt né neitt, sem mér finnst fáránlegt,“ segir hann.

Hann geti sjálfur staðið straum af kostnaðinum en fólk í fjárhagsvanda gæti lent í vandræðum.

Vill bara komast heim fyrir jól

„Ég bókaði bara flugið sem kostaði 400.000 krónur. Ég ætla bara að koma okkur heim í tæka tíð fyrir jólin. Upplýsingagjöfin er núll hjá þessum flugfélögum.

Ég skil að það er allt í rugli út af veðri og alls konar. En mér finnst þeir þurfa að gefa fólki þær upplýsingar sem það þarf til þess að komast heim fyrir jólin.“ 

mbl.is