Alltaf stór ákvörðun að loka vegi

Frá Reykjanesbraut í fyrradag.
Frá Reykjanesbraut í fyrradag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Aðstæður voru óviðráðanlegar og engum er um að kenna. Vissulega sáum við þó í atburðarásinni ýmis tækifæri til að gera betur í vinnubrögðum við snjómokstur. Þann lærdóm munum við nýta til að endurhugsa okkar áherslur,“ segir Arnar E. Ragnarsson, vaktstjóri hjá Vegagerðinni.

Í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Garðabæ er vaktstöð þar sem með myndavélum og eftir fleiri leiðum er fylgst með umferð og ástandi vega á SV-horni landsins. Út frá því eru teknar ákvarðanir um hvernig snjómokstri og öðrum aðgerðum skuli háttað.

Komust hvorki lönd né strönd

Mikið mæddi á starfsfólki í vaktstöð í því illviðri sem gekk yfir landið í byrjun vikunnar. Reykjanesbraut var lokuð frá því á fimmta tímanum aðfaranótt mánudags og allan þann dag svo mörg hundruð manns biðu í og við Leifsstöð. Komust hvorki lönd né strönd.

Undir kvöld á mánudag var í því skyni að tappa af mannfjölda í flugstöðinni gripið til þess ráðs að taka rútur sem biðu á flugvellinum í fylgdarakstur þar sem snjóruðningsbílar fóru fremstir. Þannig var ekið inn til Reykjavíkur.

„Ástandið í flugstöðinni var orðið mjög slæmt og fylgdarakstur með rútum reyndist vel. Þetta hefur verið áður gert við sambærilegar aðstæður og því var vitað hvað kæmi best út,“ segir Arnar.

Arnar E. Ragnarsson.
Arnar E. Ragnarsson. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Tryggja að moksturstæki séu tiltæk

Takmarkaður mokstur á Reykjanesbraut á mánudag hefur verið gagnrýndur. Arnar svarar því til að stórir plógar hafi nýst vel til að ryðja meginleiðir. Fyrirstöðunar hafi verið við tæplega tíu mislæg gatnamót og hringtorg sem eru á leiðinni, það er frá Hafnarfirði og suður í Njarðvík.

„Vandinn er sá að í þjónustu á þessari leið erum við ekki með samninga við eigendur vinnuvéla, til dæmis hjólaskófla, að þeir séu til taks hvenær sem þess er óskað ef til dæmis þarf að moka snjó frá fyrirstöðum við torgin þegar snjósöfnunin er svona mikil eins og varð. Þar var fljótt að draga í skafla sem stækkuðu hratt.

Miklu meira en búist var við

Svo þegar á leið mynduðust líka skaflar á Strandarheiði, við Vogastapa og á leiðinni frá Njarðvík upp að flugstöð. Litlir bílar sem skildir höfðu verið eftir í vegköntum töfðu fyrir mokstri eða jafnvel hindruðu. Í þreifandi byl varð ekki við neitt ráðið,“ segir Arnar og heldur áfram:

„Umferðin um Reykjanesbraut er mikil og eykst stöðugt. Þarna fara um á degi hverjum mörg þúsund bílar. Af því má ráða að ef eitthvað eitt stoppar umferðina hefur slíkt fljótt víðtæk áhrif.

Í ljósi reynslu síðustu daga þurfum við því að tryggja að fleiri moksturstæki fyrir Reykjanesbrautina séu tiltæk, að minnsta kosti ef veðurspá er tvísýn. Snjókoman núna var mikil, og miklu meiri en nokkru sinni var búist við.“

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: