Kuldatíð áfram næstu 7 til 10 dagana

Von er á tveimur lægðum í síðdegis.
Von er á tveimur lægðum í síðdegis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert lát er á kuldatíð sem nú ríður yfir og má búast við svipuðu veðri næstu sjö til tíu daga. Von er á tveimur smálægðum síðdegis í dag, önnur þeirra verður úti af Vestfjörðum en hin fyrir norðaustan land, að því er fram kemur á Hungurdiskum, bloggsíðu veðurfræðingsins Trausta Jónssonar.

Lægðunum mun fylgja úrkoma. Lægðin fyrir norðan hreyfist til suðvesturs í stefnu á Vestfirði en hin til suðaustur fyrir suðvestan land.

Óvissa með snjókomu á Suðurlandi 

Að auki mun myndast úrkoma  á Suðurlandi seint annað kvöld en er síðan óvíst hvort lægð suðvesturundan grípi hann upp. Mikil óvissa er í kringum þann úrkomubakka sem fylgjast ber vel með.

„Norðvestanátt er ríkjandi í háloftum. Með henni berst hvert kuldalægðardragið á fætur öðru yfir Grænland, en þau draga síðan á eftir sér slóða af köldu lofti langt úr norðri meðfram Norðaustur-Grænlandi og í átt til okkar,“ segir í samantekt Trausta. Nokkur óvissa ríkir næstu daga.

„Ákveðin óvissa er í spám þegar þessi drög fara hjá. Margt kemur þar til. Grænland aflagar vindáttir í mestöllu veðrahvolfinu – en stíflar jafnframt fyrir loft beint úr vestri eða norðvestri. Síðan er „birgðastaða“ kulda við Norðaustur-Grænland nokkuð misjöfn frá degi til dags.“ 

mbl.is