Íslendingar voru mikið á faraldsfæti þetta árið. Ólíkt síðustu tveimur árum gátu þeir sem vildu skellt sér til útlanda og þá voru einna helst tveir áfangastaðir sem stóðu upp úr; Ítalía og Tenerife.
Mikið framboð var af ódýrum flugferðum til Ítalíu í ár og nýtti fólk sér það óspart. Þannig skelltu helstu áhrifavaldar landsins sér til Ítalíu, sem og aðrar stjörnur.
Edda Hermannsdóttir markaðsstjóri Íslandsbanka og Ríkharður Daðason fjárfestir giftu sig á Ítalíu og lögðu vinir þeirra og fjölskylda leið sína til landsins. Matarbloggarinn Linda Benediktsdóttir og Ragnar Einarsson giftu sig sömuleiðis á Ítalíu.
Eurovision-söngvakeppnin var líka haldin í Tórínó á Ítalíu í ár og því voru margir sem lögðu leið sína til borgarinnar af því tilefni.
Tenerife er í tísku allan sólarhringinn árið um kring hjá Íslendingum. Þannig var ástandið að flestir þekktu einhvern sem var á Tenerife, á leiðinni þangað eða nýkominn heim frá eyjunni fögru.
Það var þó einn maður sem fór alls ekki til Tenerife á árinu, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Hann fékk þó gott boð frá Play um að skella sér suður á bóginn en þáði það ekki.
Raunveruleikastjarnan Binni Glee fór í fyrsta skipti til Tenerife á árinu og var, eins og hann orðaði það sjálfur, í sjokki. Raunveruleikaþættir hans og Patreks Jamie og Bassa Maraj, voru teknir þar í vor.