Eiginmaðurinn smíðaði jólatré fyrir Jónínu

Jónína Haraldsdóttir á fallegt jólaskraut.
Jónína Haraldsdóttir á fallegt jólaskraut. mbl.is/Árni Sæberg

Jón­ína Har­alds­dótt­ir skreyt­ir mikið á heim­ili sínu í Hvera­gerði fyr­ir jól­in. Í miklu upp­á­haldi er jóla­tré sem eig­inmaður henn­ar, Vil­hjálm­ur Al­berts­son, smíðaði fyr­ir hana en á það raðar hún jóla­skrauti af mik­illi vand­virkni. 

„Við bjugg­um úti á landi þegar ég var að ala mín börn upp og þá var kannski ekki eins mikið um skraut, en ég hef alltaf verið mik­il jóla­kona og alltaf reynt að skreyta,“ seg­ir Jón­ína og seg­ir ótrú­lega mikið hafa bæst í safnið með tím­an­um. „Einu sinni byrjaði ég að skreyta í stof­unni en nú er það þannig að ég skreyti allt húsið. Ég er með ljós í glugg­um, ég hengi dót í alla glugga, kúl­ur og skraut hang­ir hér og þar í ljósakrón­um. Ég byrja viku fyr­ir aðventu og er svo að dunda við þetta fram í aðvent­una. Ég skipti al­veg um punt og set annað í staðinn,“ seg­ir Jón­ína sem set­ur að sjálf­sögðu upp jólagard­ín­ur í eld­hús­glugg­ana.

Heima­gert jóla­tré með fal­leg­um jóla­stytt­um

Jón­ína á stórt og gott safn af jóla­dóti og sér­stak­lega af fal­leg­um jóla­hús­um. „Upp­haf­lega voru okk­ur gef­in tvö hús en svo var farið að gefa okk­ur meira og ég keypti fleiri. Á seinni árum hef ég keypt hús á ferðum er­lend­is eins og þýsku hús­in. Ég verð eig­in­lega að fara að stoppa, þetta er orðið svo mikið,“ seg­ir Jón­ína og hlær.

Fjöldi hús­anna var ein­mitt ástæða þess að eig­inmaður henn­ar tók sig til og smíðaði jóla­tré fyr­ir hana. „Við vor­um lengi vel með lif­andi greni­tré en slepp­um því. Þetta kom nú til af því að hús­in voru orðin svo mörg. Ég sagði við stelp­urn­ar mín­ar að ég þyrfti að fara að hætta þessu, skrautið kæm­ist ekki fyr­ir. Nokkru seinna kom önn­ur dótt­ir mín með mynd af net­inu og sagði við pabba sinn að hann ætti að búa til svona tré fyr­ir jóla­hús­in. Næstu jól á eft­ir bjó hann tréð til. Eft­ir það höf­um við notað þetta sem jóla­tré,“ seg­ir hún.

„Þetta eru spóna­plöt­ur. Mamma mín átti hvíta dam­askdúka sem voru í tísku þegar hún var hús­móðir. Ég klippti þá niður og notaði á plöt­urn­ar þannig að þeir eru á fast­ir á plöt­un­um og eins kant­ur­inn fram­an á. Ég raða bara eft­ir minni og það sem mér finnst fal­legt hverju sinni,“ seg­ir Jón­ína sem er með eina reglu; kirkj­an er efst.

Eiginmaðurinn smíðaði jólatréð.
Eig­inmaður­inn smíðaði jóla­tréð. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Ertu al­veg hætt að safna?

„Ég segi ekki nei ef mér er yrði rétt meira. Ég hef stund­um verið að mála postu­lín og þá líður mér voða illa ef ég tek ekki eitt hús og mála og set til viðbót­ar,“ seg­ir Jón­ína og bend­ir á að per­sónu­legu hlut­irn­ir á trénu séu ein­mitt í upp­á­haldi.

Margt hef­ur breyst

Fjöl­skyld­an sér ekki bara til þess að jóla­skrautið fái sinn stað heima hjá Jón­ínu og Vil­hjálmi. Börn­in og barna­börn­in mega held­ur ekki vita til þess að Jón­ína breyti út af van­an­um í jóla­bakstr­in­um. „Það eru þrjár, fjór­ar sort­ir sem ég baka alltaf. Ég hef talað um það við krakk­ana að fara að hætta þessu en þeim finnst það al­veg ómögu­legt og finnst þá ekki vera jól. Ég baka vanillu­hringi, rús­ínu­kök­ur og loft­kök­ur. Svo geri ég mar­eng­stoppa með pip­ar­myntu­bragði fyr­ir eitt barna­barnið mitt. Þetta eru kök­ur sem ég ólst upp við heima hjá mér.“

Þó svo kök­urn­ar hafi lítið breyst hafa skreyt­ing­arn­ar tekið mikl­um breyt­ing­um. „Skreyt­ing­arn­ar eru orðnar svo miklu meiri bæði ut­an­húss og inn­an­húss, sér­stak­lega ut­an­húss. Það var rétt svo að maður sæi eina lengju af jóla­ljós­um utan á hús­um hér áður fyrr. Við höf­um alltaf verið dug­leg að skreyta og setj­um hell­ing af jóla­ljós­um hérna úti. Maður byrjaði bara smátt með eina lengju utan á hús­inu hérna í gamla daga.“

Ástæðurn­ar eru ýms­ar fyr­ir því að minna fór fyr­ir jóla­skrauti hér áður fyrr. Jón­ína seg­ir ekki bara pen­inga hafa skipt máli, það var ekki endi­lega hefð fyr­ir að skreyta mikið. „Ég man til dæm­is eft­ir því hjá for­eldr­um mín­um að þau settu jóla­ljós utan á húsið en pabbi gerði það ekki fyrr en kannski viku fyr­ir jól.“

Jón­ína er ánægð með þá þróun að fólk skreyti meira og fyrr. „Það hef­ur verið þannig að ef við höf­um farið utan yfir jól, sem hef­ur komið fyr­ir, þá skreyti ég alltaf jóla­tréð, það fær að standa.“

Þér finnst allt í lagi að vera ekki á Íslandi yfir jól­in?

„Ég hélt að ég myndi finna eitt­hvað fyr­ir því af því að ég er svo mikið jóla­barn. Við höf­um verið tvisvar á Flórída en mér fannst það bara dá­sam­legt.“

Þegar Jón­ína og Vil­hjálm­ur voru með lít­il börn bjuggu þau á Tálknafirði. Staðsetn­ing­in og tím­inn setti sinn svip á jóla­haldið. „Það var stund­um ekki hægt að fá egg í bakst­ur fyr­ir jól­in og maður var að leita sér að upp­skrift­um sem voru eggja­laus­ar,“ seg­ir Jón­ína sem var viðbúin öllu með gas­tæki ef raf­magnið færi af. Í dag eru það dæt­urn­ar sem sjá til þess að sós­an og allt annað verði til á rétt­um tíma og ekk­ert fari úr­skeiðis. Jón­ína seg­ist skipta sér lítið af elda­mennsk­unni en finnst ómiss­andi að fá hangi­kjöt á jóla­dag.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: