Messaði í fokheldri kirkju á jólunum

Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur í Lindakirkju.
Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur í Lindakirkju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyr­ir 20 árum tók Guðmund­ur Karl Brynj­ars­son við ný­stofnaðri Linda­sókn í Kópa­vogi sem henn­ar fyrsti sókn­ar­prest­ur. Fyrstu árin fóru all­ar mess­ur safnaðar­ins fram í Linda­skóla og síðar Sala­skóla. Sex árum síðar, árið 2008, var Linda­kirkja ris­in en kirkju­skipið rétt fok­helt. Þá fékk Guðmund­ur þá klikkuðu hug­mynd að halda jóla­mess­urn­ar í fok­heldri kirkj­unni, en aft­an­söng­ur­inn klukk­an sex þann aðfanga­dag er ein besta jóla­m­inn­ing Guðmund­ar. 

„Mér finnst já­kvætt í skamm­deg­inu að lýsa upp myrkrið, hafa gam­an og njóta lífs­ins á þess­um dimm­asta tíma árs­ins. Fyrr á tím­um sner­ist aðvent­an meira um mein­læti, að fólk héldi í við sig í neyslu, en það var kannski ekki síst til þess að eiga eitt­hvað til þess að bíta og brenna yfir hátíðarn­ar. En við erum al­mennt ekki í þeirri stöðu leng­ur og tök­um forsmekk­inn á jól­in jafn­vel löngu áður en aðvent­an hefst. Mér finnst það bara gott að fólk gefi sér tíma til að vera með sín­um nán­ustu og fjöl­skyld­unni og gleðjist með þess­um hætti. Ég hef gam­an af ljós­un­um og gleðinni í kring­um jól­in og á þeim tíma leyfi ég mér að ímynda mér að jörðin smit­ist smá af þess­ari himnesku dýrð, sem ljómaði kring­um hirðana forðum,“ seg­ir Guðmund­ur. Hann seg­ir mikið um að vera í kirkj­unni á aðvent­unni og helst ber að nefna jóla­tón­leik­ana 11. des­em­ber þar sem kór Linda­kirkju, und­ir stjórn Óskars Ein­ars­son­ar, kem­ur fram.

Ekki gef­ast upp á að vænta ham­ingju

Guðmund­ur, sem hef­ur starfað sem prest­ur síðan 1996, seg­ist aðallega finna fyr­ir gleðinni í kring­um jól­in í sínu starfi en margt fólk sem kvíðir jól­un­um leit­ar til kirkj­unn­ar. „Það er fólk sem finn­ur alls ekki fyr­ir þess­ari gleði leng­ur, kannski vegna erfiðra jóla­m­inn­inga úr æsku eða það er söknuður­inn eft­ir því sem var og kem­ur sjá­an­lega ekki aft­ur. Það er svo mik­il­vægt að gef­ast aldrei upp á að vænta ham­ingj­unn­ar og gleðinn­ar. Hún get­ur verið á öðru formi en þegar okk­ur fannst við vera ham­ingju­söm­ust.“

Það lá alls ekki beint við að verða prest­ur seg­ir Guðmund­ur Karl. Þeir veg­ir sem hann fetaði og það sem hann upp­lifði sem ung­ur maður varð þó til þess að hann fór í guðfræði. Reynsla hans hef­ur hjálpað hon­um að tak­ast á við erfið verk­efni sem fylgja starf­inu.

„Sem barn var ég trúaður en alls ekki sem ung­ling­ur, eig­in­lega þver­öfugt. Það var ákveðið rugl á mér á þeim árum. Þegar ég áttaði mig á að ég var að missa tök­in á eig­in lífi leitaði ég í trúna og bæn­ina og það breytti öllu. Á þeim tíma efaðist ég um til­vist guðs og bað þess vegna. „Ef þú ert til hjálpaðu mér þá,“ sagði ég. Í dag ef­ast ekki um til­vist guðs en ég ef­ast oft um sjálf­an mig. En það er aft­ur og aft­ur þetta stefnu­mót sem maður þarf að eiga við guð, sem af ein­hverj­um ástæðum hef­ur ekki gef­ist upp á mér ennþá.“

Kirkj­an er fólkið en ekki bygg­ing

Áður en Guðmund­ur varð prest­ur við Linda­sókn var hann prest­ur úti á landi. „Það er í raun­inni miklu meira álag í helgi­hald­inu á hátíðum hjá prest­um sem þjóna í mörg­um sókn­um úti á landi en hjá okk­ur sem þjón­um í stóru presta­köll­um á höfuðborg­ar­svæðinu. Við erum þrjú prest­arn­ir í Linda­kirkju og get­um skipt á milli okk­ar verk­um. Þegar ég var prest­ur á Skaga­strönd messaði ég tvisvar á aðfanga­dag, á jóla­dag, ann­an í jól­um og gaml­árs­dag. Maður var með þetta allt einn.“

Guðmund­ur var reynd­ar líka einn þegar hann hóf störf sem prest­ur í Linda­kirkju árið 2002. „Þegar ég byrjaði í Linda­kirkju þá var nátt­úr­lega kirkj­an bara fólkið, það var ekk­ert hús til staðar. Ég var bara með gsm-síma og bjó í Breiðholt­inu, eng­in skrif­stofa eða neitt. Fljót­lega var bætt úr því með til­komu lít­ils húss sem sett var niður á lóð kirkj­unn­ar. Linda­kirkja reis ekki fyrr en ég var bú­inn að vinna í Linda­sókn í sex ár,“ seg­ir Guðmund­ur

„Við vor­um fyrst með all­ar mess­ur, þar með talið jóla­mess­urn­ar, í mat­saln­um í Linda­skóla. Þá var barna­messa, eða það sem við höf­um kallað jóla­stund fjöl­skyld­unn­ar, klukk­an fjög­ur og aft­an­söng­ur klukk­an sex. Aðaljóla­mess­an fyrstu árin var jóla­stund fjöl­skyld­unn­ar og hún er enn gríðar­vin­sæl. Við höf­um alltaf lagt mikið upp úr vandaðri fjöl­skyldu­dag­skrá á þeim stund­um. Það hent­ar mörg­um að koma klukk­an fjög­ur með börn­in. Á sín­um tíma, þegar við vor­um í skóla­hús­næðinu, voru þre­falt fleiri sem mættu á jóla­stund fjöl­skyld­unn­ar en í aft­an­söng­inn klukk­an sex. En það var skilj­an­legt. Fólki fannst kannski ekki hátíðlegt að mæta í mat­sal­inn í skól­an­um á jól­un­um,“ seg­ir Guðmund­ur.

Tvenn síðustu jól var ekki hægt að halda jóla­stund fjöl­skyld­unn­ar í kirkj­unni en þá fram­leiddi Linda­kirkja, í sam­starfi við Þor­leif Ein­ars­son leik­ara og Ri­sam­ynd­ir, vin­sæla jólaþætti sem eru aðgengi­leg­ir á net­inu.

„Þegar Linda­kirkja var byggð árið 2008 var byrjað á því að klára safnaðar­heim­ili og skrif­stof­ur en kirkju­skip, kjall­ari og turn gert fok­helt. Ég beit það samt í mig að við yrðum að halda jóla­mess­una þarna þótt það væri allt svona hrátt. Það féll í grýtt­an jarðveg hjá sum­um fyrst í stað enda skilj­an­legt því þar var bara kuldi og ber steinn­inn. Góður vin­ur minn, sem er flink­ur ljósamaður, lýsti kirkj­una glæsi­lega upp að inn­an og svo var hún hituð upp með hita­blás­ur­um. Kross­inn, sem er kom­inn upp á turn­inn núna, var bara boltaður í gólfið vinstra meg­in við alt­arið og stórt jóla­tré og jata og allt hvað eina hægra meg­in. Þetta var bara geggjað. Ég var orðinn van­ur frek­ar slappri mæt­inu í aft­an­söng­inn og beið inni á skrif­stofu fram að messu. Ég gerði mér því enga grein fyr­ir því hversu margt fólk var komið fyrr en ég sneri mér að söfnuðinum fyr­ir fram­an alt­arið. Þá blasti við mér stút­full kirkja af fólki. Ég varð klökk­ur og kom ekki upp orði fyrst í stað,“ seg­ir Guðmund­ur og að þessi upp­lif­un hafi verið einn af hápunkt­um í sinni þjón­ustu sem prest­ur.

Hið efn­is­lega skipt­ir því ekki öllu?

„Nei, nei. Við erum ekki enn búin að klára kirkj­una. Við eig­um enn eft­ir að ganga frá loft­inu inni í kirkju, lóðinni, turn­in­um og fleiru. Í mörg ár vor­um við með 12 eða 14 gerðir af stól­um í kirkj­unni. Við höf­um tekið þetta eft­ir efn­um og aðstæðum. Þetta hef­ur verið dýr­mæt og lær­dóms­rík ganga og bara skemmti­legt að fá ekki allt upp í hend­urn­ar eins og virt­ist fram að hruni. Þegar við vor­um með all­ar þess­ar týp­ur af stól­um kom eldri kona eitt sinn til mín eft­ir að hafa séð þá í fyrsta skipti og sagði: „Ég myndi óska þess að þið væruð alltaf með þetta svona. Svona er nú lífið, það er ekki allt full­komið,“ sagði hún. Við höf­um reynt að vera nægju­söm í Linda­kirkju og gert okk­ur far um að end­ur­nýta hluti. Til dæm­is sóma gömlu kirkju­bekk­irn­ir úr Kefla­vík­ur­kirkju, sem við feng­um gef­ins, sér vel hjá okk­ur og alt­arið í kap­ellu kirkj­unn­ar er gam­alt smíðaborð frá því kirkj­an var á bygg­ing­arstigi, svo eitt­hvað sé nefnt.

Er dekraður heima fyr­ir

Guðmund­ur Karl er mikið jóla­barn og fann fyr­ir ákveðnum trega þegar börn­in hans elt­ust upp úr barns­legu jólagleðinni. Allt hef­ur sinn tíma og nú er hann orðinn afi. „Ég elska ljós, skraut, jóla­sveina og allt þetta dót. Í raun­inni upp­lif­ir maður jól­in sterk­ar sem barn og í gegn­um börn­in sín. En nú á ég tveggja ára afa­st­elpu sem er strax far­in að gefa jól­un­um gaum.“

Það er lambahrygg­ur í mat­inn heima hjá Guðmundi og fjöl­skyldu á aðfanga­dags­kvöld. Hann seg­ir hrygg­inn aldrei klikka. Steik­in fær að malla í ofn­in­um á væg­um hita all­an dag­inn. Hann og kon­an hans eru bæði upp­tek­in í kirkj­unni á aðfanga­dag þar sem hún syng­ur í kirkju­kórn­um.

„Það verður að segj­ast að ég tek ekki mik­inn þátt í heim­il­is­störf­un­um á aðfanga­dag. Ég er yf­ir­leitt kom­inn niður í kirkju upp úr há­degi og kem ekki heim fyrr en hálf­átta. Ég stend í gætt­inni eft­ir aft­an­söng­inn og óska fólki gleðilegra jóla og það tek­ur rúm­an hálf­tíma. Kon­an mín er þá löngu kom­in heim og allt er orðið klárt. Maður er svo­lítið dek­ur­barn á aðfanga­dag,“ seg­ir Guðmund­ur, sem hlakk­ar til jól­anna og ekki síst aft­an­söngs­ins þar sem hátíðar­tón sr. Bjarna Þor­steins­son­ar fær að njóta sín. „Að mínu mati skap­ar hátíðar­tónið þessa ekta gam­aldags ís­lensku jóla­stemn­ingu – svipað og græn­ar Orabaun­ir í dós,“ seg­ir Guðmund­ur að lok­um.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: