„Ég man ekki eftir svona miklum snjó síðan 2008 þegar það snjóaði allt í kaf hjá okkur,“ segir Guðni Oddgeirsson úr björgunarsveitinni Þorbirni um snjókomuna þar í bæ í nótt og í morgun.
„Það er kannski ekki sama snjómagn og þá en þetta er helvíti mikið.“
Háum snjósköflum og gríðarmiklum snjó var lýst í Facebook-færslu Þorbjarnar í nótt.
Björgunarsveitin var að til klukkan rúmlega fjögur í nótt og sinnti um 10 til 15 verkefnum í gærkvöldi og í nótt. Flest snerust þau um að losa fasta bíla frá því í gærkvöldi á Suðurstrandarvegi, Grindavíkurvegi og í Grindavíkurbæ.
Einnig fór sveitin í verkefni norðan megin á Reykjanesskaga.
Núna er björgunarsveitin í nokkrum verkefnum á Nesvegi vegna fastra bíla.
Búið er að opna nánast allar götur í Grindavík, að sögn Guðna, og er unnið við að keyra snjónum í burtu. Ruðningstæki frá Grindavíkurbæ byrjuðu að ryðja götur bæjarins um hálffimmleytið í morgun og eru þær enn að störfum.