Rýmingu tveggja húsa við Höfðabrekku í Mýrdal vegna yfirvofandi snjóflóðahættu hefur verið aflétt.
Í tilkynningu á vef lögreglunnar á Suðurlandi er biðlað til fólks að gæta að sér á ferðum sínum undir bröttum hlíðum næstu daga vegna úrkomu.
„Úrkoma hér á Suðurlandinu hefur verið það mikil að víða getur verið hætta á að spýjur hlaupi fram, einkum í fjalllendi.“
Gul viðvörun vegna veðurs er nú í gildi á Suðausturlandi og aftur á miðvikudag og fimmtudag.
Þá segir að snjór sé á vegum um allt vestanvert Suðurland og að nú snjói austar.