Gróðurhúsið í Hveragerði hefur vakið verðskuldaða athygli síðan það opnaði fyrir einu og hálfu ári. Nú hefur áfangastaðurinn slegið svo rækilega í gegn að tískubiblían Vogue beinir sjónum sínum að Gróðurhúsinu.
Í Gróðurhúsinu er hótel en einnig verslanir og veitingastaðir eða eins og blaðamaður Vogue skrifar á góðri íslensku „mathöll“. Hálfdán Pedersen sá um heildarhönnun og - útlit Gróðurhússins og kemur fram að sjálfbærni hafi verið höfð að leiðarljósi við hönnunina.
Farið er yfir það í Vogue hvað er hægt að gera í Hveragerði og nágrenni og er sérstaklega mælt með Reykjadal, skálanum í Reykjadal sem Háldán hannaði einnig, sem og náttúrulaugarnar, hverina og golfvöllinn.