Moka inn pening með snjómokstri

Frá vinstri: Alexander Young, Ólafur Bragason, Jónas Thor Þórhallsson
Frá vinstri: Alexander Young, Ólafur Bragason, Jónas Thor Þórhallsson mbl.is/Baldur Arnarson

Hópur þrettán ára pilta úr Hlíðunum moka nú snjó eins og enginn sé morgundagurinn, en þeir eru að safna fyrir ferð til Helsinki með fótboltaliði sínu. 

Alexander Young ræddi við mbl.is, en hann er forsprakkinn af þessu framtaki. „Ég byrjaði á þessu í fyrra og var þá bara að safna pening fyrir mig, en það virkaði svo vel að nú erum við að gera þetta fleiri saman og skipta milli okkar hverfum.“

Hópurinn telur nú tólf stráka, en þeir eru allir saman í 4. flokki Vals í fótbolta og stefna á að fara til Helsinkis í Finnlandi næsta sumar.

Taka við pöntunum

Alexander segir að það væri bara skemmtilegt ef enn fleiri bætast í hópinn, það sé gott að vera tveir til þrír saman með hvert verkefni og þeir afkasti meiru ef þeir eru fleiri. 

„Við fórum þrír út í gær og náðum að vinna okkur inn 18 þúsund með því að moka frá þremur húsum.“

Strákarnir birtu færslu á Facebook þar sem þeir auglýstu þessa þjónustu sína, þar hrúguðust inn pantanir frá fólki sem vantaði vaska snjómokstursmenn til þess að moka úr tröppunum sínum, frá innkeyrslum eða undan bílum. 

„Við förum þangað sem fólk er búið að panta og svo bönkum við stundum upp á og bjóðum öðru fólki þjónustuna líka. Við erum að fara að moka heila götu á eftir.“

„Þetta á ekki að vera auðvelt“

Spurður hvort svona snjómokstur sé ekki erfiðisvinna svarar Alexander: „Þetta á ekki að vera auðvelt.“ 

Það er samt ljóst að þeir eru komnir með vel smurða verkferla, en þeir skipta með sér verkum, einn brýtur klaka, annar mokar og sá þriðji notar svokallaða ýtu til að koma snjónum burt.

Erfiðast er að moka innkeyrslurnar að sögn Alexanders, vegna þess að snjómokstursbílarnir eru oft búnir að moka öllum snjónum fyrir þær og þannig þjappast hann saman og það þarf að brjóta hann upp áður en hægt er að moka.

Mokar þar til snjórinn fer

Strákarnir eru í áttunda bekk og eru í jólafríi um þessar mundir. Alexander ætlar sé samt að halda áfram að vinna við snjómoksturinn meðan það er ennþá snjór til að moka. „Maður getur alltaf farið út eftir skóla eða um helgar og tekið eitt og eitt hús.“

Hann finnur fyrir því að reynslan af snjómokstrinum í fyrra skilar sér í ár. „Ég er auðvitað árinu eldri núna og sterkari en ég er líka búinn að fatta betri leiðir til að gera þetta.“

Strákarnir láta ekki duga að nota eina gerð af skóflu. „Við erum með stunguskóflu fyrir klakann og svo erum við með léttari skóflur fyrir snjóinn. Við erum líka með sóp til þess að hreinsa alveg burt af tröppum og við erum með ýtu til að ýta snjónum burt.“

mbl.is