Áramótabrennur í hættu

Óvissa ríkir um hvort brennur verði tendraðar í Reykjavík vegna …
Óvissa ríkir um hvort brennur verði tendraðar í Reykjavík vegna veðurs. mbl.is/Hafþór

Mikil óvissa ríkir um hvernig veðrið verður á gamlársdagskvöld en samkvæmt spá á vef Veðurstofu Íslands verður breytileg átt á landinu öllu frá 5-15 m/s. Ákvörðun um hvort brennurnar fari fram verður tekin á gamlársdagsmorgun.

Hámarksviðmið á vindhraða var 15 m/s en er nú 10 m/s til þess að brennur megi vera tendraðar. 

Ein­ar Skúla­son, rekstr­ar­stjóri aust­ur­hluta Reykja­vík­ur­borg­ar, vonast til þess að veðurspáin verði hagstæð enda sé búið að kalla út fjölda fólks til þess að sjá um brennurnar á gamlárskvöld.

„Það eina sem get­ur komið í veg fyr­ir að ára­móta­brenn­urn­ar verði haldn­ar er hvassviðri. Brenn­ur verða ekki tendraðar ef vind­hraði er yfir 10 m/​s og verður tekin ákvörðun um þetta á samráðsfundi í Skógarhlíð á gamlársdagsmorgun,“ segir Ein­ar.

Mikið púður í að færa brennuna

Mikið púður færi í að færa brennuna og er það sísti kosturinn að sögn Einars en málið er alfarið í höndum sérfræðinga.

„Á fundinum verða m.a. lögregla, slökkvilið og veðurfræðingur þar sem farið verður yfir hvort þetta sé af eða á. Ef ekki verður tendrað í brennunum verður reynt að finna aðra dagsetningu til þess að kveikja í þeim en annars verður timbrið keyrt í burtu og því fargað.“

Mikil vinna færi í að keyra timbrið í burtu og …
Mikil vinna færi í að keyra timbrið í burtu og farga því. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is