Fannfergi með fádæmum. Fólk úti að moka og karl á traktorsgröfu að stinga sig í gegnum fimm metra háan skafl. Stórum jeppum er ekið eftir götum og á gatnamótum byrgja háir ruðningar sýn. Íbúðarhús eru týnd í snjó svo jafnvel er gengt upp á þök þeirra.
Svona var á Eyrarbakka í gær.
„Ég man ekki annað eins,“ segir Emma Eiríksdóttir sem býr á Túngötu 32.
Þau Emma og Hafþór Gestsson eiginmaður hennar höfðu ekki miklar áhyggjur þegar byrjaði að snjóa nokkrum dögum fyrir jól. Ofankoman var mikil og svo herti á með skafrenningi aðfaranótt Þorláksmessu.
Snjór sem fauk fram mýrarnar ofan við kauptúnið festist í drögum og á milli húsa svo upp hlóðust skaflar, sumir fjögurra til fimm metra háir.
Nánar er rætt við Emmu og fjallað um ástandið á Eyrarbakka í Morgunblaðinu í dag, auk þess sem fleiri myndir fylgja.