Lagnir frjósa í hesthúsum í Víðidal

Mikið frost er í Víðidal.
Mikið frost er í Víðidal. mbl.is/Árni Sæberg

Lagnir hafa frosið í nokkrum hesthúsum í Víðidal í Reykjavík í þeim kulda sem herjað hefur á landið. Hestamenn veigra sér þó hvergi við að fara á hestbak í kuldanum.

Frost í Víðidalnum hefur í dag verið á bilinu 7,5 til 17,2 gráður, en mest náð 24,4 gráðum í þessari viku.

Í kuldanum er mikilvægt að hestafólk passi að skilja ekki eftir kalt vatn fyrir hrossin við innganginn þar sem það gæti frosið.

Hjörtur Bergstað, formaður Fáks, segir að flestir séu komnir með hitaveitu í sín hús en lagnir hafi verið að frjósa í nokkrum húsum, sem gerist iðulega í köldu veðri.

Hestarnir eru komnir með vetrarhár svo kuldinn er þeim ekki …
Hestarnir eru komnir með vetrarhár svo kuldinn er þeim ekki til mikils ama. mbl.is/Árni Sæberg

Þarf að passa að ofreyna ekki hestana

„Menn þurfa að passa, þegar þeir eru að opna út og svoleiðis, að vera með kalt vatn til þess að gefa hestunum að drekka. Lagnirnar og vatnsdallar eru jafnvel við útidyrahurðina og þetta er gjarnt á að frjósa ef menn passa sig ekki,“ segir Hörður í samtali við mbl.is.

Hestarnir verða hrímaðir í kringum nef og munn í veðrinu en þeim er ekkert kalt að sögn Harðar, þar sem þeir eru komnir með síð vetrarhár.

Þó þarf að passa að ofreyna þá ekki, enda sé það slæmt fyrir öndunarfærin. Fólk þurfi líka að passa að vera vel búið í frostinu.

Knapi heldur af stað. Hörður segir engu líikt að ríða …
Knapi heldur af stað. Hörður segir engu líikt að ríða í færðinni sem er nú í Víðidal. mbl.is/Árni Sæberg

Svo ánægjulegt að fólk gleymir kuldanum

„Það er alveg svakalega gaman og skemmtilegt að ríða út í þessu færi og í þessu mikla frosti. Þá verður snjórinn svo fjaðurmagnaður og hestarnir verða svo góðir. Þetta er svo ánægjulegt að það má segja að menn gleymi svolítið kuldanum í ljósi ánægjunnar sem hesturinn gefur manni í þessu færi og þessu veðri.

En fólk þarf náttúrulega að vera með eitthvað fyrir vitum sínum og eins ekki vera að rennbleyta hestana í svita og skilja þá eftir lengi inni í gerði. Menn þurfa aðeins að gæta að sér því að hestar eru náttúrulega með lungu eins og við.“

Hörður minnist á að hestafólk eigi við sama vanda að stríða og fleiri í borginni. Barist sé við snjóinn sem nauðsynlegt er að moka í burtu svo hægt sé að gefa hrossunum.

„Snjóruðningstæki eru jafnsjaldséð og hvítir hrafnar í dalnum hjá okkur. Við erum að berjast við það eins og aðrir, en við erum heppin með það að við náum að moka alla reiðvegina en göturnar eru ekkert rosalega góðar.

Það er vont vegna þess að þetta eru skepnur sem þarf að gefa og hestamennsku stundar fólk á öllum aldri, bæði fólk og upp í gamalmenni,“ segir Hjörtur að lokum.

mbl.is