Loka gluggum og taka fram kerti og spil

Snjór á Reyðarfirði. Mynd úr safni.
Snjór á Reyðarfirði. Mynd úr safni. Ljósmynd/Fjarðabyggð

„Menn finna að það er farið að kólna í húsum. Hér eru lokaðir gluggar og kertaljós.“

Þetta segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, um yfirstandandi rafmagnsleysi á Reyðarfirði. Hann hvetur fólk til að hafa glugga lokaða og draga fram kerti og spil.

Eins og áður hefur verið greint frá er rafmagnslaust á Reyðarfirði, vegna bilunar í spennivirkjun á Stuðlum inni í Reyðarfirði.

RARIK óttast að rafmagnslaust verði fram á kvöld í bænum en unnið er að því að flytja varaafl og varaspenni víða af landinu.

Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Ljósmynd/Aðsend

Lán í óláni

Jón Björn segir stærsta vandamálið við rafmagnsleysið á svæðinu vera áhrif á húshita. Hann bendir á að öll hús í Reyðarfirði séu kynt með rafmagni eins og á flestum stöðum á Austurlandi.

„Það hefur heilmikil áhrif, allt þéttbýlið er úti. Því lengur sem rafmagnsleysið varir því minni verður hiti í húsunum.“

Hann segir það þó vera lán í óláni að veðrið á svæðinu sé ekki jafn slæmt og veðurspár gerðu ráð fyrir.

Gul veðurviðvörun er í gildi á Austfjörðum í dag og fram á morgun og er spáð fimmtán til tuttugu metrum á sekúndu með éljagangi og skafrenningi.

Ófært í bæinn

Að sögn Jóns vinnur RARIK að því núna að koma varaafli frá Seyðisfirði og varaspenni frá Akureyri í bæin. Reiknað er með að rafmagn verður aftur komið á í kvöld.

Ófært er um Fagradal eins og stendur sem gerir starfsmönnum RARIK erfitt fyrir að komast á staðinn.

Jón segir mikilvægt að vinna þetta sem hraðast og bætir við að Vegagerðin ætti að vinna bug á ófærðinni í Fagradal seinna í dag. Hann telur það ólíklegt að rafmagnsleysið vari fram á næsta dag.

Ljósin í álverinu eru enn á

Álverið á Reyðarfirði er ekki rafmagnslaust eins og bærinn allur en Jón bendir á að álverið fái rafmagnið sitt annars staðar að.

Álverið er tengt við rafmagnslínu sem kemur frá Kárahnjúkavirkjun og er því tengt utan rafmagnskerfis Reyðarfjarðar.

Jón segir því ljós og ofna enn ganga í álverinu og að hefðbundin starfsemi haldi áfram þar í dag.

mbl.is