Ekið á hjólapóst í Hafnarfirði

Ekið var á starfsmann Póstsins á rafhjóli við Hvaleyrarbraut í …
Ekið var á starfsmann Póstsins á rafhjóli við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði í dag. Ljósmynd/Aðsend

Ekið var á starfsmann Póstsins sem var á rafhjóli við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði í dag.   

Að sögn Kristínar Ingu Jónsdóttur, forstöðumanns markaðsdeildar Póstsins, þá slasaðist enginn.

„Starfsmaður Póstsins var í rétti og viðeigandi aðilar voru kallaðir á staðinn,“ segir hún í skriflegu svari til mbl.is. 

Bréfberarnir vaða skafla

Spurð hvernig færðin í desember hafi áhrif á bréfbera segir Kristín að krefjandi veður og kuldi hafi gert starfsmönnum um allt land erfitt fyrir. 

„Þeir hafa síður en svo skorast undan og leggja ýmislegt á sig til að allt gangi vel fyrir sig.“

Hún segir að allskonar uppákomur hafi átt sér stað hjá starfsmönnum. 

„Bílar hafa farið út af veginum, bílar og rafhjól hafa fest sig og einhverjir orðið veðurtepptir. En starfsfólkið okkar hefur verið að moka frá póstboxum, bílum og rafhjólum, og bréfberarnir okkar vaða skafla.“

Víða er þungfært.
Víða er þungfært. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristín segir að ekkert annað þýði en að hugsa í lausnum og takast á við þessar áskoranir með bros á vör. 

„Mikilvægast er að tryggja öryggi starfsfólks, það er að sjálfsögðu alltaf í fyrirrúmi. Það er hins vegar mjög spennandi að vinna hjá Póstinum á svona tímum því við finnum fyrir hinni sterku liðsheild og allir eru tilbúnir til þess að geta sinnt viðskiptavinum.“

mbl.is