Það glaðnaði yfir bæjarbúum í Sandgerði þegar þeir fengu hvít jól, en magnið var í upphafi of mikið og næstu daga bætti frekar í. Það er mjög algengt að ef snjóar mikið á Miðnesheiðina og hvessir af norðaustan, þá verði mikill skafrenningur í Sandgerði.
Þannig hefur það verið undanfarna daga með mikilli ófærð í og við Sandgerði. Stærstu skaflarnir voru um fjögurra metra háir og engin tæki fóru í gegnum þá. Götur voru flestar ófærar nema fyrir öfluga jeppa.
Það hefur verið mikil vinna að ryðja götur með alls konar tækjum. Gripið var til jarðýtu, beltagröfu, tveggja mokstursvéla, fimm traktorsgrafa og þriggja vörubíla sem fluttu snjóinn á hafnarsvæðið.