Flugfélögin seinka flugi á morgun

Röskun verður á flugi um áramótin vegna veðurs.
Röskun verður á flugi um áramótin vegna veðurs. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Icelandair hefur ákveðið að seinka öllu flugi til og frá Norður-Ameríku um eina klukkustund og öllu flugi til Evrópu um tvær klukkustundir á morgun, gamlársdag. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair en um er að ræða tólf komur frá Norður-Ameríku og ellefu brottfarir til Evrópu í fyrramálið, og í kjölfarið ellefu komur frá Evrópu seinnipartinn. 

Samkvæmt spám verður skyggni slæmt og færð erfið fyrir fólksbíla. Þess vegna mælum við með því að farþegar fari með rútu til Keflavíkur, nema þeir hafi yfir að ráða vel búnu ökutæki.

Play seinkar um morguninn

Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, segir í samtali við mbl.is að þremur Evrópuflugum, til Parísar, Lundúna og Kaupmannahafnar, verði seinkað frá klukkan sex til klukkan níu í fyrramálið.

Þá verði komum tveggja Bandaríkjafluga, frá Boston og New York, seinkað frá rétt fyrir fimm til hálf átta um morguninn. 

Birgir segir að náið verði fylgst með veðri og færð um helgina. 

mbl.is