Lögreglan fundar með brennustjórum á höfuðborgarsvæðinu og veðurfræðingi klukkan tíu í fyrramálið en þá verður tekin ákvörðun um hvort áramótabrennur verði leyfilegar á gamlárskvöld.
Mikil óvissa hefur ríkt um hvort brennur fari fram á gamlárskvöld en samkvæmt veðurspá er búist við þó nokkrum vindi annað kvöld.
Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri á umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir ekkert óeðlilegt við fundinn og að fundað sé á hverju ári á gamlársdag til að leggja mat á hvort fýsilegt sé að halda brennu.
Hann tekur fram að ákvörðun verði tekin í samræmi við reglugerð frá umhverfisráðherra þar sem ákveðin veðurskilyrði eru talin upp svo leyfilegt sé að halda áramótabrennu.
Spurður að því hvað felist í skilyrðunum segir Árni að ekki verður kveikt í bálkesti ef vindhraði fer yfir tíu metra á sekúndu.
Árni bendir á að veður er misjafnt eftir staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu og gæti því farið sem svo að sumar áramótabrennur verði leyfðar en aðrar ekki. Sem dæmi nefnir hann að oft sé töluvert meiri vindur í efri byggðum en í Vesturbænum.
„Auðvitað vonum við öll að áramótabrennur fari fram en það er ákveðin reglugerð í gangi sem við þurfum að framfylgja.“