Lýsir yfir óvissustigi vegna veðurs

Von er á austan og suðaustan hvassviðri.
Von er á austan og suðaustan hvassviðri. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna. Í tilkynningu segir að þetta sé gert vegna veðursins sem spáð er í nótt.

Einnig er tekið fram að haft hafi verið samráð við lögreglustjórana á Suðurlandi, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu.

Eins og mbl.is hefur áður greint frá er von á austan og suðaustan hvassvirði eða hríð sem hefst um eittleytið í nótt, og búast má við skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Fólki hefur verið bent á að fylgjast með veðurspám og færð á vegum.

„Ef spárnar ganga eftir verður veður orðið skaplegt um hádegi á morgun, gamlársdag.  En þó er gott að hafa í huga að fyrir miðnætti á gamlárskvöld fer veðrið að minna á sig á ný,“ segir í tilkynningu ríkislögreglustjóra.

Samráðsfundur með fólki um allt land

Í tilkynningunni er einnig greint frá því að samráðsfundur hafi verið haldinn í dag, „með viðbragðsaðilum um land allt“.

Þar hafi verið farið „yfir stöðuna og mögulegt viðbragð“, þar sem miklar líkur séu á að veðrið hafi veruleg áhrif á samgöngur á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesskaga.

„Mikill fjöldi ferðafólks er á landinu og því geta samgöngutruflanir haft áhrif á ferðalög þeirra, ekki síst til og fá höfuðborgarsvæðinu. Því er það algjört grundvallaratriðið [sic] að þau sem þurfa að fara á milli staða fylgist með veðurspá og færð vega.“

Ljóst er þá að ástæða er talin til að virkja aðgerðastjórnir á því svæði þar sem versta veðrinu er spáð, sem og samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð, og verður það gert í nótt.

Ætla má að geti leitt til þess að öryggi sé stefnt í hættu

Á vef almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra segir eftirfarandi um svonefnt óvissustig:

„Óvissustig einkennist af atburðarás sem er hafin og ætla má að geti leitt til þess að öryggi fólks og/eða byggðar sé stefnt í hættu. Á þessu stigi hefst samráð milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar. Athuganir, rannsóknir, vöktun og mat er aukið. Atburðurinn er skilgreindur og hættumat framkvæmt reglulega til að meta stöðuna hverju sinni.“

mbl.is