Reykjanesbraut hugsanlega lokað í nótt

Gripið verður mögulega til þess að rútur sinni fylgdarakstri á …
Gripið verður mögulega til þess að rútur sinni fylgdarakstri á meðan lokuninni stendur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líkur eru á að Reykjanesbraut verði lokað í nótt vegna færðarinnar. Eru vegfarendur og þeir sem eiga pantað flug að morgni gamlársdags hvattir til að fylgjast með þróun mála á vef Vegagerðarinnar og vefsíðum flugfélaganna. 

Ekki hefur enn verið ákveðið hvort Reykjanesbraut verði lokað að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar. Spurður hvort Vegagerðin hafi gert ráðstafanir fyrir nóttina segir hann:

„Við erum viðbúin öllu eins og venjulega. Við fylgjumst vel með þróun mála.“ 

Búast má við að veður verði slæmt á flestum stöðum á Suður- og Suðvesturlandi í nótt.

Rútur líklega í fylgdarakstri ef til lokunar kemur

Vegna hugsanlegra lokana á Reykjanesbraut er Vegagerðin í viðbragðsstöðu og keppst verður við að halda Reykjanesbraut opinni eins mikið og kostur er, að því er fram kemur í tilkynningu.

Ef til lokunar kemur er líklegt að skoðaður verði fylgdarakstur á rútum milli höfuðborgarsvæðis og flugstöðvar í samráði við Isavia. Búast má við að veðrið verði verst milli klukkan þrjú og átta á gamlársdagsmorgun en á Hellisheiði og í Þrengslum getur komið til lokana milli klukkan sex og níu að morgni.

Líklega lægir að morgni gamlársdags en einnig má búast við því að færðin geti spillst aðfaranótt nýársdags og fram eftir degi á nýársdag.

Ekki er langt síðan Reykjanesbrautinni var lokað vegna illfærðar og margir tengifarþegar urðu strandaglópar á Keflavíkurflugvelli. Talið er að umdeild lokunin hafi haft áhrif á tugþúsundir farþega en flugfært var á Keflavíkurflugvelli þegar á henni stóð.

Icelandair og Play hafa núna gripið til seinkana á flugi frá Bandaríkjunum og Evrópu á gamlársdag.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is